Skömmin hafði ótrúleg áhrif

Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara, Halla Ólöf Jónsdóttir og Nína …
Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara, Halla Ólöf Jónsdóttir og Nína Rún Bergsdóttir leiddu gönguna og fluttu hugvekju. mbl.is/Eggert

„Við erum hér útaf leyndarmáli sem er ekki lengur leyndarmál,“ sagði Nína Rún Bergsdóttir en hún flutti hugvekju fyrir hönd kyndilbera í Ljósagöngu UN Women í dag. Auk hennar voru  Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara og Halla Ólöf Jónsdóttir kyndilberar.

Er þetta í fyrsta skipti sem þær koma allar saman síðan #höfumhátt fór af stað í sumar eftir að Robert Downey var veitt uppreist æra snemma í sumar.

„Ég og stelpurnar sem standa mér við hlið, Anna, Glódís og Halla, vorum allar misnotaðar kynferðislega af sama manninum þegar við vorum allar yngri en 17 ára. Af hverju var það leyndarmál? Af því að samfélagið ákvað það. Hrútarnir ákváðu það,“ sagði Nína.

Hún sagði að í meira en áratug hefði skömmin legið hjá þeim og það hefði leitt til sjálfsskaða, fíkniefnanotkunar, áfallastreituröskunar og tilraunar til sjálfsvígs. Allar hefðu þær flosnað upp úr námi.

Fjölmennt var við ljósagöngu UN Women í Reykjavík í dag.
Fjölmennt var við ljósagöngu UN Women í Reykjavík í dag. mbl.is/Eggert

„Við gátum ekki lengur þagað“

„Skömm okkar hefur haft ótrúleg áhrif á allt okkar líf. Gerandinn fékk aðeins þriggja ára dóm. Hann sat inni í tvö ár og býr núna í villu á Spáni,“ sagði Nína.

Hún sagði að þær hefðu staðið upp þegar dæmdi maðurinn sótti um uppreista æru í þeim tilgangi að öðlast lögmannsréttindi sín aftur. „Við gátum ekki lengur þagað. Ljóstra þurfti upp um leyndarmálið. Andmælalaust fékk hann æruna til baka. Það virtist honum eins auðvelt og að fá aðgang að Netflix,“ sagði Nína og því ákváðu þær að hafa hátt.

„Fyrir opnum tjöldum fórum við fram á að ráðherrar gæfu okkur svör við því hvernig á öllu þessu stæði. Sumir ráðherrarnir þögðu meðan aðrir neituðu að veita okkur upplýsingar. Svo þegar hið sanna kom í ljós sprakk ríkisstjórnin.“

Frá ljósagöngu UN Women í Reykjavík í dag.
Frá ljósagöngu UN Women í Reykjavík í dag. mbl.is/Eggert

Hættum að halda með stjórnmálaflokkum

Hún spyr hvers vegna opinberir aðilar siguðu starfsmönnum sínum á erlenda fjölmiðla til að ritskoða kvenfrelsissögu Íslands. Nína benti á að enn megi iðrunarlausir barnaníðingar sinna lögmannsstörfum. „Enn virðast ráðherrar leyndarhyggjunnar ætla að príla upp í stólana sína í ráðuneytunum.“

Nína sagði að fólk í öllum flokkum og öllum stéttum verði fyrir kynferðisofbeldi. „Hættum að halda með stjórnmálaflokkum eins og fótboltaliðum. Sameinumst um að rétta af kynbundin launamun og stöðvum kynbundið ofbeldi. Hreinsum beinagrindur barinna kvenna út úr skápunum og byrjum upp á nýtt. Við brotnum ekki undan storminum og mótlætinu. Við viljum réttlæti! Við erum gosið! Við erum stormurinn!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert