Viðvörun áfram í gildi fram eftir degi

Fólk á ferðinni er hvatt til að kynna sér færð …
Fólk á ferðinni er hvatt til að kynna sér færð á vegum áður en lagt er af stað. mbl.is/Rax

Búast má við norðvestanátt á austanverðu landinu í dag, 15-23 m/s og éljum. Með deginum á að draga úr vindi og úrkomu og á morgun er spáð hægviðri og léttskýjuðu veðri á Austurlandi. Frost víða 3 til 8 stig.

Á vestanverðu landinu verður í dag norðlæg átt, 5-10 m/s og léttskýjað. Frost á landinu verður frá -2 til -10 stig, kaldast í innsveitum norðanlands.

Á morgun er spáð hlýnandi veðri og að dragi úr vindi austanlands. Snjókoma eða slydda suðvestan til og hitastig við frostmark. Bjartviðri norðan- og austanlands, en þó stöku él við ströndina. Frost á landinu á bilinu -3 til -14 stig, kaldast í innsveitum.

Í athugasemdum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands er sérstök athygli vakin á því að viðvaranir vegna stórhríðar og vinds eru áfram í gildi fram eftir degi og eru ferðalangar hvattir til að kynna sér vel færð á vegum áður en þeir leggja af stað.

Útlit er fyrir hæga breytilega átt í byrjun vikunnar, víða léttskýjað og fremur kalt veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert