Icelandair flýgur beint á alla Íslandsleiki á HM

Gerir Icelandair ráð fyrir að flogið verði frá Íslandi daginn …
Gerir Icelandair ráð fyrir að flogið verði frá Íslandi daginn fyrir leik og til baka daginn eftir leik. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Icelandair hefur ákveðið að fljúga að minnsta kosti eina flugferð til þeirra þriggja borga í Rússlandi þar sem leikir Íslands í riðlakeppninni fara fram að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá flugfélaginu. Það kemur í ljós næsta föstudag, 1. desember, um hvaða borgir verður að ræða og hverjir leikdagar Íslands verða, en þá verður dregið í riðla keppninnar.

Gerir Icelandair ráð fyrir að flogið verði frá Íslandi daginn fyrir leik og til baka daginn eftir leik.

„Við fáum mikið af fyrirspurnum um HM og ljóst að fjöldi Íslendinga mun gera sér ferð á keppnina. Eflaust munu margir nýta sér áætlunarflug til borga í Evrópu og taka þaðan flug eða lest á áfangastað, en nú liggur fyrir að Icelandair mun fljúga beint á alla þrjá leiki Íslands í riðlakeppninni“, er haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúi Icelandair, í tilkynningunni.

Fljótlega að loknum HM-drættinum 1. desember, þegar leikstaðir og leiktímar liggja fyrir, verður flugið auglýst og sett í sölu. Áhugasamir geta skráð sig á HM síðu Icelandair. Þá verður einn þátttakandi dreginn út og fær ferð fyrir tvo til Rússlands með gistingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert