Greiða atkvæði gegn samningnum

Andrés Ingi Jónsson.
Andrés Ingi Jónsson. mbl.is/Eggert

Andrés Ingi Jóns­son og Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þing­menn Vinstri grænna, ætla að greiða atkvæði gegn stjórnarsáttmála verðandi ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.  

Þetta kom fram í samtali RÚV við þau.

Þau sögðu að það muni koma í ljós síðar hvort þau muni geta starfað áfram í þingflokknum. Bæði lýstu þau yfir andstöðu sinni við stjórnarsáttmálann í ræðum sínum á flokksráðsfundi VG í kvöld. 

Stór atriði sem ekki er talað um

„Það eru mjög stór atriði þarna sem er ekki talað um, eins og einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni eða arðgreiðslur úr heilbrigðisþjónustu,“ segir Rósa Björk í samtali við blaðamann mbl.is, um helstu ástæður þess að hún muni greiða atkvæði gegn samningnum. Þetta er baráttumál Vinstri grænna og hefur verið um árabil.“

Andrés Ingi segir að gerð rammaáætlunar sé meðal mála sem hafi haft áhrif á ákvörðun hans. „Það er fullkomlega óljóst hvernig á að búa um rammaáætlun til framtíðar sem hefði þurft að negla á þessum tímapunkti til að við hefðum haldreipi inn í kjörtímabilið,“ segir Andrés Ingi í samtali við mbl.is. 

Rósa Björk gerir einnig fleiri athugasemdir við atriði í stjórnarsáttmálanum. 

„Ég hefði líka viljað sjá stærri og róttækari skref þegar kemur að móttöku flóttamanna og svo líka þegar kemur að þróunarsamvinnunni.“ Þá segir hún utanríkismálakafla sáttmálans vera mikil vonbrigði. „Hann er fullkomin uppgjöf af hálfu Vinstri grænna, að minni skoðun.“

Sjáið þið fyrir ykkur að þið getið starfað í þessari ríkisstjórn, verði stjórnarsáttmálinn samþykktur?

„Það kemur bara í ljós, við tökum eitt skref í einu,“ segir Rósa Björk.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson
Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert