„Þeir eru í einhverjum feluleik“

„Við erum ennþá að leita að þessum mönnum,“ segir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan leitar enn tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa selt tveimur stúlkum undir lögaldri eiturlyfið MDMA.

Tvær 15 ára stúlkur fundust meðvitundarlausar í miðborg Reykjavíkur á fimmtudagskvöld en önnur þurfti að fara í önd­un­ar­vél á gjör­gæslu og komst til meðvit­und­ar dag­inn eft­ir að hún fannst.

Guðmundur segir lögregluna telja sig vita hverjir mennirnir eru en annar þeirra er á 18. ári en hinn eldri. „Við fórum í gær í nokkur húsnæði og þeir vita sjálfsagt af því að við vitum af þeim. Þeir eru í einhverjum feluleik en við finnum þá.

Stúlk­urn­ar fund­ust við hús á Grett­is­göt­unni. Annar mannanna býr í húsi í grennd­inni og hef­ur lög­regl­an farið þangað í hús­leit án þess að finna hann. Guðmundur segir að það geti verið að lögreglan láti lýsa eftir mönnunum ef leitin ber ekki árangur á næstu dögum.

Viðurlögin við því að selja og afhenda krökkum fíkniefni geta varðað allt að sex ára fangelsi en Guðmundur segir að það sé ekki refsivert að fela sig fyrir lögreglunni. „Þeir geta sagt að þeir hafi ekki vitað af því að það væri verið að leita að þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert