Stjórnin boðar „stórsókn“ í menntamálum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir er nýr mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er nýr mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur boðar í stjórnarsáttmála sínum „stórsókn í menntamálum“, en Lilja Dögg Alfreðsdóttur varaformaður Framsóknarflokksins mun gegna embætti mennta- og menningarmálaráðherra á kjörtímabilinu.

Í inngangsorðum kaflans um menntun og vísindi segir að lögð verði rík áhersla á að „efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi“. Nýsköpun og þróun verði að efla á öllum skólastigum, enda sé menntun kjarninn í nýsköpun til framtíðar.

Lögð er áhersla á ríkið þurfi að beita sér til að bregðast við kennaraskorti, í samstarfi við sveitarfélög og stéttarfélög. Þá þurfi að stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum.

Í sáttmála nýrrar stjórnar segir að nýsköpun og þróun verði …
Í sáttmála nýrrar stjórnar segir að nýsköpun og þróun verði að efla á öllum skólastigum. mbl.is/Hari

Vilji nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja framhaldsskólum „frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga og kanna kosti sveigjanlegra skólaskila,“ en þegar talað er um sveigjanleg skólaskil er átt við þau skil sem eru á milli leik- og grunnskóla og grunn- og framhaldsskóla. Sveigjanleiki á skilunum þarna á milli gæti til dæmis falist í því að grunnskólanemar geti tekið áfanga við framhaldsskóla í fjarnámi, eða að börn á fimmta aldursári geti hafið nám í grunnskóla.

Áhersla á að efla iðnnám, verk- og starfsnám

Aukin tækniþekking til að auka samkeppnishæfni íslensk samfélags virðist nýrri ríkisstjórn ofarlega í huga. Þá verður iðnnám, verk- og starfsnám eflt, „í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags.“ Sérstök áhersla verður einnig lögð á listnám og í sáttmálanum segir að unnið verði að lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands á kjörtímabilinu.

Markmið ríkisstjórnarinnar varðandi fjármögnun háskólastigsins stefna að því að Íslandi nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025, í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs. Aukið fjármagns til háskólastigsins muni skipta sköpum fyrir bæði kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum.

Jafnrétti til náms óháð aðstæðum

Í stjórnarsáttmálanum segir að jafnt aðgengi að námi óháð búsetu og öðrum aðstæðum verði meginmarkmið. Þá segir einnig að endurskoða þurfi löggjöf um framhaldsfræðslu og setja skýran ramma um starfsemi menntastofnana og samstarf þeirra við atvinnulífið.

Námslánakerfið verður endurskoðað í samstarfi við námsmannahreyfingar og í þeirri vinnu verður lögð áhersla á jafnrétti til náms, skilvirkni og námsstyrkja kerfi að norrænni fyrirmynd.

Einnig stendur til að fjármögnuð verði aðgerðaáætlun um máltækni, þannig að íslensk tunga verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert