Dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga

Stjórnarsáttmálinn kynntur.
Stjórnarsáttmálinn kynntur. mbl.is/Eggert

Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd á þessu kjörtímabili og hún fjármögnuð. Geðheilbrigðisþjónusta á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum úti um land verður efld og bráða- og barna- og unglingageðdeildum Landspítalans verður tryggt fjármagn til að standa undir rekstri þeirra.

Heilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum verður efld með áherslu á geðheilbrigði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kaflanum um heilbrigðismál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í morgun.

Í sáttmálanum segir að ríkisstjórnin muni fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra.

Mótuð verða markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Heilsugæslan verður efld sem fyrsti viðkomustaður notenda og framkvæmdir við nýjan með- ferðarkjarna Landspítala munu hefjast næsta sumar.

Sálfræðiþjónusta skoðuð sem hluti af kerfinu

Ríkisstjórnin ætlar jafnframt að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Árangur núverandi kerfis verður metinn með hliðsjón af veikasta fólkinu og þættir sem eru ekki hluti af því verða skoðaðir, eins og ferða- og uppihaldskostnaður, tannlækningar og sálfræðiþjónusta.

Í sáttmálanum segir að ráðist verði í stórsókn í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraðra, sem muni birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert