Fjölskyldan var flutt úr landi í morgun

Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim.
Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim. mbl.is/Árni Sæberg

Hjónin Nasr Mohammed Rahim og Sobo Answar Hasan voru flutt úr landi snemma í morgun, ásamt Leo, 18 mánaða syni sínum. Fjölskyldunni hafði verið synjað um hæli á Íslandi og þar áður í Þýslandi. Sobo er ólétt og lá inni á spítala um helgina vegna verkja og blæðinga, sem ekki höfðu fundist skýringar á.

Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með ír­akst rík­is­fang og Sobo með ír­anskt. Leo er hinsvegar fæddur á flótta og því ríkisfangslaus.

Mbl.is fékk það staðfest hjá Útlendingastofnun að fjölskyldan hefði dvalið í úrræði á vegum stofnunarinnar í nótt. Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, telur það nánast öruggt að fjölskyldan hafi svo verið flutt til Þýskalands í morgun, líkt og stóð til, enda hefur ekki náðst í þau í dag.

Uppfært kl. 16.42: Sema heyrði fyrir skömmu í Nasr og Sobo. Þá voru þau í umsjá lögreglunnar á flugvellinum í Frankfurt. Biðu þau í óvissu og vissu ekkert um framhaldið, hvort þau yrðu send til Íraks, Írans eða fengju að vera í Þýskalandi.

„Þau fóru úr þessu úrræði Útlendingastofnunar klukkan fimm í morgun og það var flug til Frankfurt klukkan tuttugu mínútur yfir sjö, sem þau voru örugglega í því við höfum ekki náð í þau í nokkra klukkutíma. Við höfum ekki fengið svör um annað þannig við göngum út frá því að þau séu farin,“ segir Sema í samtali við mbl.is. Henni kom varla dúr á auga í nótt og viðurkennir að hún sé hálfbuguð.

„Það er alltaf verið að tala um að betrumbæta hitt og þetta, vera með betra verklag, breyta þessu og gera betur, en svo er komið svona fram við fólk.“

Ætluðu að sækja um endurupptöku á næstu dögum 

Sema hafði ásamt lögmanni fjölskyldunnar unnið að því að afla gagna vegna endurupptöku málsins, en þau ætluðu að óska eftir því á næstu dögum að mál þeirra yrði tekið upp aftur. „Við vorum búin að fara yfir málið og sjá að það voru nokkrar forsendur fyrir því að óska eftir endurupptöku á málinu þeirra. Í gær vorum við að útvega gögn sem þurfti til þess. Svo vitum við ekki fyrr en lögreglan er mætt heim til þeirra og búin að fjarlægja þau af heimili sínu. Það voru hafðar mjög hraðar hendur þarna af einhverjum óútskýrðum ástæðum.“

Sema segir fólk yfirleitt látið vita með nokkurra daga fyrirvara þegar flytja á það úr landi, en þannig hafi það ekki verið í þeirra tilfelli. Þau hafi verið fjarlægð af heimili sínu samdægurs. „Það vissi enginn að þessi brottvísun stæði til. Við vorum ekki búin að sjá neina pappíra um dagsetningu brottvísunar. Annars hefðum við haft hraðari hendur.“

Á vef Útlendingastofnunar má finna verklagsreglur um það hvernig fylgd úr landi skuli háttað eftir synjun um vernd. Þar kemur fram að alþjóðadeild ríkislögreglustjóra kynni viðkomandi þegar tímasetning lögreglufylgdar úr landi liggur fyrir. Ýmsar ástæður séu hins vegar fyrir því að erfitt sé að fastsetja dagsetningu lögreglufylgdar og því geti komið til hennar með stuttum fyrirvara. Þó er talað um að helst eigi að gefa að lágmarki tveggja daga fyrirvara.

Mbl.is hafði samband við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra en þar var enginn við sem gat svarað fyrirspurn blaðamanns um málið.

Algengt að fólk sé sent til heimalandsins eftir synjun 

Sema segist nú bíða eftir að komast í samband við fjölskylduna svo hægt sé að staðsetja hana. „Við þurfum fyrst og fremst að komast að því hvort þau hafi stoppað í Þýskalandi eða verið send áfram. Það er yfirleitt þannig að þegar fólk er búið að fá neitun þá fer það ekki einu sinni inn í landið þegar það er sent til baka, heldur beint áfram með næstu vél.“

Að sögn Semu er fjölskyldan í einstaklega erfiðri stöðu, enda þau hjónin frá sitthvoru landinu.

„Hann er frá Írak og hún frá Íran. Ég veit ekki hvort hún getur farið til Íraks því hún hefur enga pappíra þar. Það er því hætt við að þau verði aðskilin. Þau eru ekki óhult, í hvorugu landinu. Þeirra bíður mjög óskemmtileg heimkoma á báðum stöðum. Ef þau verða hins vegar send áfram frá Þýskalandi þá hafa íslensk yfirvöld gerst brotleg við alþjóðasamninga.“

Sema og aðrir velunnarar fjölskyldunnar hafa ekki gefist upp og ætla að skoða allar leiðir svo að hægt verði að tryggja þeim vernd. „Við ætlum líka að skoða hvernig var staðið að þessu. Hvort það hafi verið einhverjir formgallar. Ég upplifi þetta þannig að þarna hafi verið brotnar einhverjar verklagsreglur og reglur um meðferð á fólki á flótta, svo ég tali nú ekki um börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert