Flaug mjög nálægt sólinni

Krummi Björgvinsson, tónlistarmaður, á heimili sínu.
Krummi Björgvinsson, tónlistarmaður, á heimili sínu. mbl.is/Hari

Oddur Hrafn Björgvinsson er landsmönnum best þekktur sem Krummi, einatt kenndur við rokksveitina Mínus. Hér ræðir hann nýútkomna plötu sína með rafsveitinni LEGEND, uppsprettu reiðinnar, dálæti sitt á 80's tónlist og vegan-veitingastaðinn sem hann og unnustan, Linnea Hellström, opna saman áður en langt um líður. 

Þessa dagana á rokk/metal-rafsveitin LEGEND hug Krumma allan en hana skipar hann ásamt Halldóri Björnssyni hljómborðsleikara. Sveitin sendi nýverið frá sér aðra breiðskífu sína, Midnight Champion, en þegar hafði komið út platan Fearless árið 2012.

Krummi er sýnilega í góðu skapi þegar við tyllum okkur í spjallið og ekki að undra, platan hefur víðast hvar fengið skínandi góða dóma. Ekki ber á öðru en lífið sé gott. Það kemur upp úr dúrnum að rafrokk tónlistin sem LEGEND leikur er ekki nýtilkomin bóla í huga hans heldur hefur hann brætt þetta með sér síðan á mektarárum Mínuss, rokksveitarinnar sem sigraði Ísland og rúmlega það á fyrri hluta síðasta áratugar. Krummi er maður eigi einhamur þegar kemur að tónlist og hefur spreytt sig á mörgum tónlistarstefnum. Hljómborðin hafa blundað í honum um langt árabil.

Í ætt við Depeche Mode

„Mig langaði alltaf að gera hljómsveit sem væri með annan fótinn í metalmúsík, og hinn fótinn í raftónlist í ætt við Depeche Mode,“ segir Krummi án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hversu mjög þessi tiltekna tilvísun gleður blaðamann. Hann kemst að því nógu fljótlega, á minn sann.

„Þetta er músík sem ég hef mjög lengi verið hrifinn af og var að leika mér með á Mínus-tímabilinu. Ég kynnist Dóra [Halldóri í Legend] árið 2000, á milli platna þegar Mínus er að springa út og þá var hann með stúdíó og með hljómsveit sem var að spila músík í ætt við Depeche Mode og Nine Inch Nails. Mér fannst það geðveikt og mætti einn daginn með trommusett og tilkynnti þeim að ég ætlaði að tromma í bandinu. Svo fór Mínus á flug og ég varð að hætta því ég hafði ekki tíma í neitt annað en rokkið. En við Dóri urðum rosa miklir vinir og vorum alltaf með það bakvið eyrað að gera band saman. Árið 2010 förum svo saman í stúdíó að leika okkur aðeins með allar þessar pælingar og platan kom svo út 2012. Þetta var eiginlega fræ sem ég plantaði í hausnum á mér og Dóra fyrir löngu og það fékk að dafna þar síðan og varð loks að bandinu okkar, LEGEND.“

mbl.is/Hari

Raftónlist síðan í frumbernsku

Endrum og sinnum þarf Krummi að taka símann og klára ákveðna vinnutengda hluti símleiðis. Hann sér um að bóka listamenn á Gaukinn og er ennfremur með opnun lítils vegan-veitingastaðar inni á staðnum í bígerð. Hann klárar mikilvægustu málin símleiðis, slekkur svo á símanum og heldur áfram, án þess að hafa tapað þræðinum.

„Ég hef verið að hlusta á raftónlist síðan ég var krakki aftur í eitís, hlustaði mikið á Black Celebration og þessar plötur með Depeche Mode. Svo hlustaði ég bara á það sem var í útvarpinu á þessum tíma, Ultravox, O.M.D., Tears For Fears – ég dýrkaði þetta stöff, á þetta mestallt á vínyl ennþá og er bara eitís-nýbylgju poppari inn við beinið, líka. Meðfram því hlustaði ég líka á harðari músík, pönk, metal, indí og rokk, allt í bland.

Svo átti rafmúsíkin gersamlega hug minn allan þegar rave-senan kemur hingað til lands frá Bretlandi. Ég spilaði eintóma raf- og dansmúsík þegar ég var að plötusnúðast, hékk endalaust í [plötubúðinni] Þrumunni, og keypti þar músík. Enn þann dag í dag á ég gríðarmikið safn af raftónlist á vínyl síðan þá. Ég var til dæmis einn af þeim fyrstu hér á landi til að eignast plötu með Aphex Twin því ég fór og pantaði hana í sérstakri útgáfu á lituðum vínyl sem var bara til í mjög takmörkuðu upplagi. Þetta höfðu ekki margir séð svo það var mikið verið að fara heim til mín að hlusta á þetta,“ segir Krummi og hlær við upprifjunina. Hann heldur áfram:

„Þaðan fór ég að hlusta á harðari danstónlist eins og Ajax, sem var í raun bara elektrópönk, músík sem foreldrarnir voru ekki að skilja sem þýðir alltaf að músíkin er góð,“ bætir hann við og hlær aftur. „Þegar ég fer svo út í tónlist af alvöru langar mig að blanda þessum melódísku elektró-áhrifum úr eitís-tónlistinni saman við hörkuna og höggþyngdina úr rokkinu og metalnum, sjá þessi tvö element blandast saman í því sem er LEGEND í dag. Þetta er epísk músík, með stórum heimi, framsækið. Nýja platan er á sinn hátt mikið prog rokk líka, eiginlega blanda af öllu.“

Útgáfutónleikar verða svo 3. febrúar á Gauknum.

Músík til að halda sönsum

Krummi hefur í gegnum tíðina spilað alls konar músík og þó hann sé sjálfsagt rokkari í sínum innsta kjarna þá er hann hreint ekki einhamur þegar kemur að tónlist. Hann lék á sínum tíma í ljúfum kassagítardúett sem kallaðist The Moody Company, ásamt Franz Gunnarssyni sem flestir tengja við hljómsveitina Ensími; hann skipar kántrídúettinn Esju ásamt Daníel Ágúst Haraldssyni úr Nýrri danskri og GusGus; hann skipar sludge-noise rokksveitina Döpur ásamt unnustu sinni, Linnea Hellström. Þessa dagana fer mestur tími í metal-rafsveitina LEGEND, sem fyrr segir. Þá er ótalið ambient-verkefni sem hann hefur unnið í einn. Sólóverkefni þetta hefur ekki fengið nafn ennþá og bíður þess að Krummi gefi sér tíma til að gefa það út. Það er þó á stefnuskránni, að sögn hans, og vonandi fyrr en seinna. „Ég fann gamlar upptökur af ambient-músík sem ég hafði verið að gera á árunum 2003 og 2004 og hafði tekið upp á kassettu. Þetta er fullt af lögum sem ég hafði tekið upp í herberginu heima og mig langar að gera eitthvað með þetta þegar ég hef tíma.“

Fáum hefur eflaust komið til hugar að rokkguðinn Krummi væri að semja og taka upp ambient-músík, einn síns liðs heima hjá sér á þeim tíma sem Mínus fór með himinskautum í kringum útgáfu þeirra vinsælustu plötu, Halldór Laxness sem kom út 2003. Tónlistarstefnur verða satt að segja ekki mikið ólíkari.

„Það hentar mér mjög vel að vera með mörg mismunandi projekt í gangi á hverjum tíma, verkefni sem ég get gengið í fyrirvaralaust og farið að gera músík. Svo hoppar maður út og fer í næsta verkefni. Svona á það að vera, eingöngu fyrir ánægjuna af því að búa til músík. Ég verð líka auðveldlega leiður á hlutunum og þá er gott að hafa eitthvað annað til að taka í. Svo fer ég bara til baka í það sem ég var að fást við áður.“

Það er þó ekki eingöngu einskær áhugi hans á tónlist út af fyrir sig sem hefur leitt hann í svo margar mismunandi áttir; Krummi segist einfaldlega verða að hafa eitthvað fyrir stafni. Annars geti farið illa.

„Fyrir mig, sem hef verið að díla við ADHD og alls konar kvilla síðan ég var smákrakki, þá verð ég að hafa eitthvað fyrir stafni. Um leið og ég verð eirðarlaus þá brjótast út alls konar hlutir sem ég vil ekki sjá brjótast út. Þegar ég er að fást við hluti þá líður mér vel og fólki í kringum mig líður þá vel líka. Mín reynsla er sú að það er mun betri geislun af mér ef ég hef eitthvað að gera.“

Hann gerir stutt hlé á máli sínu meðan hann vætir kverkarnar með bjórsopa.

„Heilinn í mér hættir aldrei. Ég stofna stundum margar hljómsveitir á einni viku og er búinn að búa til konseptið, teikna lógóið, hanna koverið á plötuna og búa þetta allt saman til. Það á þá bara eftir að semja músíkina,“ segir hann og hlær við. „Auðvitað þarf maður að líka chilla og slaka á í bland, ég er ekki að segja að maður sé eins og stálfjöður hvern einasta dag, en það er mér nauðsynlegt að hafa nóg fyrir stafni, svo ég sé þreyttur þegar ég leggst út af á kvöldin og sofni vel.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert