Amir á leið aftur heim til Íslands

Amir Shokrgoz­ar er nú á leið aftur til Íslands. Andri …
Amir Shokrgoz­ar er nú á leið aftur til Íslands. Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir í Mílanó er hann var þar á ferð. Skjáskot/Facebook

Íranski hæl­is­leit­andinn Amir Shokrgoz­ar, sem vísað var frá Íslandi í fylgd fimm lög­reglu­manna í fe­brú­ar á þessu ári og send­ur til Ítal­íu, er nú á leiðinni til Íslands aftur. „Hann flýgur heim til Íslands frá Ítalíu á morgun,“ segir Jóhann Emil Stefánsson, eiginmaður Amirs, í samtali við mbl.is. „Hann er þakklátur fyrir að vera loksins á leiðinni heim, því hér á hann heima.“

Mbl.is greindi frá því í síðasta mánuði að Amir væri gert að greiða sjálfur fyrir eigin brottflutning, um 635.000 krónur, og ætlaði hann að flytja hingað til lands aftur, en þeir Jóhann, eða Jói eins og hann er kallaður, giftu sig á Sikiley í byrjun síðasta mánaðar.

Mikið var fjallað um mál Am­irs á sín­um tíma en hann flúði heima­land sitt vegna kyn­hneigðar sinn­ar. Áður en hann kom til Íslands var hann á flótta á Ítal­íu þar sem hann var of­sótt­ur, bæði lík­am­lega og and­lega, jafnt fyr­ir kyn­hneigð sína sem kristna trú, og var lenti í hópnauðgun í flótta­manna­búðum þar í landi.

Tókst með hjálp frá góðu fólki

Amir og ís­lensk­ur unnusti hans, Jó­hann Emil Stef­áns­son, höfðu reynt að fá að gifta sig hér á landi fyr­ir brott­flutn­ing­inn. Lög um út­lend­inga sem tóku gildi hér á landi um síðustu ára­mót  kveða hins veg­ar á um að til þess að fólk geti sótt um dval­ar­leyfi hér á landi á grund­velli hjú­skap­ar þurfi það að vera gift í eitt ár eða leng­ur.

Amir og Jói auglýstu í síðasta mánuði bíl sinn til sölu á Facebook upp í skuldina við íslenska ríkið. Jói segir að tekst hafi að selja bílinn, sem er af gerðinni Toyota Avens­is ár­gerð 2004. Salan á honum hafi þó ekki hrokkið til greiðslu skuldarinnar, en tekist hafi að safna því sem upp á vantaði með aðstoð góðs fólks. „Annars hefði þetta aldrei tekist,“ segir hann. „Þannig að það er þakkarvert.“

Skuldin við ríkið var greidd í síðustu viku og búið er að skila inn umsókn um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar. Jói hefur síðan fengið lánaðan bíl til að sækja Amir á flugvöllinn á morgun, en segir að öðru leyti óljóst hvað taki við hjá þeim.

„Það er margt í pípunum og maður er bara að skoða hlutina,“ segir hann og er þakklátur fyrir að þeir geti eytt jólunum saman á Íslandi. Það eigi síðan bara eftir að koma í ljós hvort þeir búi áfram í Reykjavík eða haldi jafnvel norður í land, en Jói er ættaður þaðan.

Hann segist enn sem komið er ekki hafa deilt því með mörgum að von sé á Amir, en Amir var vinmargur hér á landi er hann var fluttur úr landi. „Ég sagði Andra Snæ Magnasyni rithöfundi að Amir væri að koma aftur og okkar nánasta fólki og svo var Amir búin að láta Toshiki Toma [prest innflytjenda] vita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert