Hindra Írar útgöngu Breta úr ESB?

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundar í dag með Jean-Claude Juncker, …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundar í dag með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um útgöngu Bretlands úr sambandinu. AFP

Deilan um landamæri Írlands og Bretlands kann að gera Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, ókleift að ná í dag samningi við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um útgöngu Bretlands úr sambandinu.

May fundar í Brussel í hádeginu í dag með Juncker, en sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá ESB er fundurinn í dag síðasti mögu­leik­inn á að ná ein­hverju fram varðandi kom­andi viðræður. Ann­ars verði ekk­ert af fyr­ir­hugaðri ráðstefnu um viðskipt­in í framtíðinni líkt og til stend­ur að halda15. des­em­ber.

Nokkuð hefur mjakast í viðræðum Breta við ESB undanfarið en örlög landamæra Írlands og Norður-Írlands, sem er undir stjórn Breta, eru hins vegar með öllu óráðin.

„Viðræðurnar eru á viðkvæmum stað núna,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Simon Coveney utanríkisráðherra Írlands. Írska stjórnin hefur boðað til sérstaks fundar um landamærin í dag.

Deilan snýst m.a. um það hvernig halda megi opnum „mjúkum“ landamærum milli Írlands og Norður-Írlands, þannig að ekki verði tekið upp landamæraeftirlit, og koma í veg fyrir að friðarsamkomulagið sem náðist í lok síðustu aldar eftir áratuga átök verði rofið.

„Vonandi finnum við einhverja leið fram á við, en ef við gerum það ekki þá mun afstaða írskra stjórnvalda ekki breytast,“ sagði Coveney.

Vilja skriflega yfirlýsingu frá Bretum

Írland hefur nú neitunarvald varðandi framhald Brexit viðræðnanna og nýtur stuðnings Donald Tusk, forseta Evrópuráðsins. Sagði hann í heimsókn sinni hjá Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, í síðustu viku að væri Írland ekki sátt þá væri ESB það ekki heldur.

Bresk stjórnvöld eru hins vegar áköf að halda viðræðunum áfram og hafa hafnað eindaga ESB fyrir ráðstefnuna í síðustu viku.

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram drög að hugmynd um landamærin sem bæði írsk og bresk stjórnvöld verða að samþykkja, en það virðist hins vegar vera erfitt að því er AFP hefur eftir einum sendifulltrúa ESB.

Ríkin eru þó sammála um að ekki eigi að taka upp landamæraeftirlit eftir að Bretland gengur úr ESB, en írskum stjórnvöldum hefur gengið illa að fá skriflega staðfestingu frá Bretum um slíkt.

Halda bresk stjórnvöld í því fram að ekki sé hægt að leysa málið nema sem hluta af framtíðarsamningum ríkjanna um tengsl þeirra á milli.

BBC segir May einnig sæta þrýstingi frá sambandssinnum á Norður-Írlandi, sem tryggja bresku stjórnina falli í þinginu, um að ekki verði sett um landamæri að nýju með því að ná fram sérstökum tollasamningum við Írland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert