Heitavatnsnotkun aldrei meiri í nóvember

Í nóvember runnu tæpir níu milljarðar lítra af heitu vatni …
Í nóvember runnu tæpir níu milljarðar lítra af heitu vatni inn í hús frá Hafnarfirði í suðri til Mosfellsbæjar í norðri. LjósmyndVeitur

Aldrei hefur meira verið notað af vatni úr hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu í nóvembermánuði en nú í ár. Mánuðurinn var enda frekar kaldur og stormasamur undir lokin.

Í tilkynningu frá Veitum kemur fram að um 90% af heita vatninu fer til húshitunar. „Í nóvember runnu tæpir níu milljarðar lítra af heitu vatni inn í hús frá Hafnarfirði í suðri til Mosfellsbæjar í norðri. Það er 15% meira magn en sama mánuð í fyrra.“ Mesta heitavatnsnotkunin er þó yfirleitt í desember og janúar.

Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar var nóvember kaldur. Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,2 stig, -0,9 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 og -2,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Það má því draga þá ályktun að samhengi er á milli tíðarfarsins og heitavatnsnotkunarinnar.

Veitur reka hitaveitu fyrir um 70% Íslendinga. Sú stærsta er á höfuðborgarsvæðinu. „Heita vatnið sem notað er á höfuðborgarsvæðinu kemur annars vegar frá lághitasvæðum í Mosfellsbæ og Reykjavík (Laugarnesinu og Elliðaárdal) og hins vegar frá háhitasvæðum á Nesjavöllum og nýjasta viðbótin kom á árinu 2010 þegar heitavatnsframleiðsla hófst í Hellisheiðarvirkjun,“ segir í tilkynningu frá Veitum.  





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert