Ódýrara að bjarga sér sjálfur

Það verða margir Íslendingar í Moskvu næsta sumar.
Það verða margir Íslendingar í Moskvu næsta sumar. AFP

Fólk sem hyggst leggja land undir fót og berja íslenska landsliðið í knattspyrnu augum á heimsmeistaramótinu í Rússlandi næsta sumar getur keypt ódýrari flugmiða en íslensku flugfélögin hafa boðið upp á síðustu daga.

Icelandair hefur fyllt tvær flugvélar til Moskvu en í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að verð í flug og gistingu sé frá 175 þúsund krónum. Skúli Mogensen, for­stjóri WOW air, sagði fyrir helgi að loftbrú yrði milli Íslands og Rússlands. Flugfélagið mun fljótlega hefja sölu á flugum til Rússlands.

Auk þess eru nokkrar ferðaskrifstofur með pakkaferðir til sölu. Ferð á einn leik Íslands á HM í Rússlandi næsta sum­ar, þar sem gist­ing í tvær til þrjár næt­ur, flug, rútu­ferðir og eft­ir at­vik­um leiðsögn, er innifal­ið, gæti kostað á bil­inu 200 til 250 þúsund krón­ur. 

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Golli

Erlendu flugfélögin bjóða upp á hentugt tengiflug

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri vefsíðunnar turisti.is, telur að möguleikarnir á flugi til Moskvu, þar sem Ísland mætir Argentínu 16. júní, séu margir núna ef flogið er yfir meginland Evrópu og þaðan til Rússlands. „Slíkar ferðir kosta 50 - 70 þúsund krónur jafnvel þótt ferðast sé á einum miða. Réttindi farþega með slíka miða eru meiri en þeirra sem kaupa flugleggina í sitthvoru lagi,“ segir Kristján.

Hann segir nokkur erlendu flugfélögin sem fljúga til Íslands bjóða upp á hentugt tengiflug til Moskvu og heildarferðalagið frá Keflavík til Moskvu, með millilendingu, þurfi ekki að vera lengra en ellefu klukkustundir.

Langar lestarferðir

„Ég get nefnt sem dæmi flug með Lufthansa og CZA. Einfaldasta leiðin til Volgograd og Rostov virðist líka oftar en ekki liggja í gegnum Moskvu og þaðan áfram í innanlandsflugi eða með lest,“ segir Kristján.

Samkvæmt Google-leitarvélinni er fljótlegasta lestarferðin milli Volgorad og Moskvu rúmar 18 klukkustundir en Ísland mætir Nígeríu í öðrum leik í Volgograd 22. júní. Lestarferð frá Volgograd til Rostov, þar sem Ísland mætir Króatíu í þriðja leik 26. júní, tekur ekki „nema“ sjö og hálfa klukkustund.

Sverrir Ingi Ingason leikur með Rostov.
Sverrir Ingi Ingason leikur með Rostov. mbl.is/Golli

„Í sumar mun rússneska flugfélagið S7 bjóða upp á vikulegt flug milli Íslands og Moskvu í fyrsta skipti en flugáætlunin hentar ekki nógu vel fyrir þá sem ætla á leiki Íslands, jafnvel þótt S7 fljúgi til bæði Volgograd og Rostov frá Moskvu,“ segir Kristján.

Skortur á gistingu í Rússlandi

Hann segir að þó að flugið ætti ekki að reynast fólki mikið vandamál sé skortur á gistingu í Rússlandi. Hluti skýringar á því megi rekja til þess að ferðaskrifstofur hafi tekið frá mikið af herbergjum sem þær selji eða láti af hendi þegar nær dregur mótinu. Blaðamaður fann þó einhver hótelherbergi í Moskvu en til að mynda bauð booking.com upp á þriggja stjörnu hótel þar sem tvær nætur, 15. - 17. júní kosta samtals 37.797 krónur.

„Staðan gæti batnað en það er ákveðin áhætta að ætla að bíða og sjá,“ segir Kristján sem bætir við að það sé alveg ljóst að gistingin verði stærsti kostnaðarliður ferðalagsins, sérstaklega þegar gist er í Moskvu. Hann hvetur fólk til að nýta tímann vel í borgunum þremur, enda ekki á hverjum degi sem leið hins almenna Íslendings liggur til Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert