Hlaðborð til styrktar fórnarlömbum flóða í Víetnam

Gríðarleg eyðilegging blasir við íbúum í Víetnam vegna mannskæðs storms.
Gríðarleg eyðilegging blasir við íbúum í Víetnam vegna mannskæðs storms. AFP

„Mig langar að hjálpa fórnarlömbum hörmunganna í Víetnam því það eru margir sem misstu allar eigur sínar. Mig langar líka að sýna hvað Íslendingar eru góðir,“ segir Chang frá Víetnam en hún stendur fyrir vegan hlaðborði til styrktar íbúum í Víetnam sem misstu eigur sínar í einum mannskæðasta stormi sem reið yfir Víetnam 5. nóvember síðastliðinn. Vegan hlaðborðið verður í Ármúla 9, á fimmtudaginn 7. desember klukkan 18-20. Allur ágóði rennur beint til þeirra sem urðu verst úti og allir eru velkomnir.

Boðið verður upp á fjölbreytta vegan rétti frá Víetnam og verður meðal annars kjúklingur, fiskur og súpur á boðstólnum auk úrvals grænmetisrétta. Einnig verður hægt að kaupa málverk og kaupverðið rennur til styrktar íbúum Víetnam í neyð. Tekið er á móti frjálsum framlögum og verða söfnunarbaukar á staðnum.

100 manns létust og þúsundir húsa eyðilögðust

Um hundrað manns létust þegar hitabeltisstormurinn Damny lét til sín taka. Um fimm þúsund hús gjöreyðilögðust og standa því fleiri þúsund manns allslaus, auk þess varð mikið tjón á um 250 þúsund hekturum ræktaðs lands. Borg­in Nha Trang varð verst úti en hún er um 500 kíló­metra suður af strand­borg­inni Da Nang.

Chang, sem tók upp íslenska nafnið Kristín Kristjánsdóttir, rennur blóðið til skyldunnar því tjónið varð nálægt heimaslóðum hennar en fjölskyldan hennar slapp. Hér er hægt að sjá myndband af eyðileggingunni.

Chang eða Kristín kom til Íslands árið 2010. Hana hreinlega langaði til að prófa eitthvað nýtt og ákvað því að koma hingað. Hún á eiginmann og fjölskyldu og líður ákaflega vel hér á landi.

Chang eða Kristín Kristjánsdóttir.
Chang eða Kristín Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

 „Á Íslandi er gott að vera“

„Á Íslandi er gott að vera. Íslendingar eru svo hjálpsamir og glaðir,“ segir Chang. Hún segir velferðarkerfið hér mun betra sem og launakjör fólks. Hún nefnir sem dæmi að þegar fólk veikist í Víetnam verði það að greiða allan kostnað sjálft við sjúkrahúslegu auk lyfjakostnaðar. „Við þurfum að borga allt og þegar einn úr fjölskyldunni veikist þurfa hinir að hjálpa til að borga því það kostar svo mikið,“ segir Chang. Hún hyggst ekki flytja aftur til Víetnam því henni líður mjög vel á Íslandi þótt hún sakni Víetnam en kjör hennar eru mikið betri hér á landi.  

Hún vill koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa aðstoðað við undirbúninginn og að sjálfsögðu vonast hún til að sjá sem flesta gæða sér á góðum mat og styrkja gott málefni.   

Hér er viðburðurinn á Facebook.

Stofnaður hefur verið eftirfarandi styrktarreikningur:

Reikningur: 515-14-41320

Kennitala: 250686-4399



Um 100 manns létust.
Um 100 manns létust. AFP
Móðir og sonur við verslun sína reyna að halda sér …
Móðir og sonur við verslun sína reyna að halda sér þurrum í flóðunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert