Eldri borgarar vilja vinna á leikskólum

Eldri borgara vilja aðstoða við að leysa manneklu á leikskólum …
Eldri borgara vilja aðstoða við að leysa manneklu á leikskólum og frístundaheimilum. mbl.is/Árni Sæberg

„Okkur eldri borgurum er fátt óviðkomandi. Við fengum það út úr könnum sem gerð var hjá okkur á þessu ári að framlag eldri borgara til hinna yngri er í fjárhagsstuðningi og aðkomu að barnabörnunum, meðal annars vegna lokunar leikskóla og frístundaheimila.“ Þetta segir Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík.

Félagið skorar á skólayfirvöld í Reykjavík að skoða gaumgæfilega hvort ekki er hægt að fá hæft  fólk á eftirlaunum til hlutastarfa á leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar.

„Við finnum fyrir því innan félagsins að eldri borgarar eru oft kallaðir til vegna þessara lokana sem almennt eru á leikskólum,“ ítrekar Gísli.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi félagsins þann 21. nóvember síðastliðinn er bent á ítrekað séu sagðar fréttir af starfsmannaskorti á leikskólum og frístundaheimilum í Reykjavík og nágrenni. Að loka þurfi deildum leikskóla nokkra daga í mánuði vegna manneklu og erfiðlega gangi að manna frístundaheimilin. Fjöldi foreldra og barna standi frammi fyrir miklum vanda vegna ástandsins.

Gísli þekkir persónulega til þar sem leikskólabarn þarf að vera heima sjöunda hvern dag vegna manneklu. Þá eru það gjarnan amma og afi sem taka að sér að gæta barnsins. Ef þeirra nýtur ekki við þurfa foreldrar hins vegar að vera heima með börnin og Gísli bendir að það sé ekki alltaf skilningur á því hjá atvinnurekendum.

Í ályktun félagsins segir meðal annars: „Félag eldri borgara lýsir sig reiðubúið til að aðstoða við úrlausn þessara brýnu mála og  hafa samvinnu við bæði borgaryfirvöld og Félag leikskólakennara um að útvega fólk til starfa á leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar.“

Gísli segir mikinn vilja hjá félagsmönnum að leggja sitt að mörkum. „Við leggjum þetta því fram í umræðuna, hvort ekki sé hægt að nýta starfskrafta eldri borgara á þessum stöðum. Fólk sem er lært og hefur til þess þekkingu en er farið af vinnumarkaði vegna þessara aldursákvæða, 67 til 70 ára. Fólk sem hefur fulla starfsgetu.“

Gísli telur hugmyndina vel raunhæfa, enda hefði hún annars ekki verið samþykkt af stjórn félagsins. „Við erum að meina þetta. Við erum að koma þessu að innan skóla- og frístundasviðs borgarinnar.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert