Kantbiti bryggjunnar of stuttur

Bíllinn fór í sjóinn við höfnina þar sem farþegar fara …
Bíllinn fór í sjóinn við höfnina þar sem farþegar fara í Hríseyjarferjuna.

Fjórum umferðarstöplum hefur verið komið fyrir við enda ferjubryggjunnar á Árskógssandi vegna banaslyssins sem varð þar í síðasta mánuði.

Þrennt lést þegar bíll fór í sjóinn af bryggjunni.

Í bréfi Rannsóknarnefndar samgönguslysa frá 15. nóvember var óskað eftir því að gerðar yrðu úrbætur til að tryggja öryggi þeirra sem fara um bryggjuna og var brugðist við með því að koma umferðarstöplunum fyrir.

Þetta kom fram á fundi veitu- og hafnarráðs Dalvíkurbyggðar í morgun.

Þar var einnig fjallað um ábendingu í bréfinu varðandi ferjubryggjuna um að kantbiti sé 15 til 16 cm hár en á að vera minnst 20 cm, samkvæmt reglugerð.

„Í framhaldi af slysinu óskaði sviðsstjóri eftir teikningum af ferjubryggjunni frá siglingasviði Vegagerðar ríkisins. Þær hafa borist og er bryggjan í öllu byggð samkvæmt þeim en þær eru dagsettar í febrúar 1987,“ segir í fundargerðinni.

„Rétt þykir að geta þess að engar athugasemdir hafa verið gerðar við frágang bryggjunnar við venjubundna úttekt af hendi eftirlits.“

Leiðindaveður var á Árskógssandi þegar bíllinn fór í sjóinn, snjókoma, hálka og dimmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert