Ókeypis námsgögn í Reykjavík

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti skömmu eftir miðnætti að námsgögn yrðu ókeypis í Reykjavík frá og með vetrinum 2018-2019. Foreldrafélögin fimm í Breiðholti fagna þessu ásamt Samfok (Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá foreldrafélögunum.

„Í upphafi skólaárs sendu foreldrafélög allra grunnskóla í Breiðholti áskorun til borgaryfirvalda þar sem tekið var undir áskorun Barnaheilla um að yfirvöld virði réttindi barna til gjaldfrjálsrar grunnskólamenntunar, líkt og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um. Í kjölfarið hafa tæplega 50 sveitarfélög tekið ákvörðun um að afla börnum gjaldfrjálsra námsgagna og nú einnig Reykjavík.

Foreldrafélög allra grunnskóla í Breiðholti og SAMFOK (Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík) fagna ákvörðun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var eftir fund borgarstjórnar þriðjudaginn 5. desember  um endurgjaldslaus námsgögn frá og með skólavetrinum 2018-2019.

Félögin fagna þessari ákvörðun af margvíslegum ástæðum, til dæmis hefur slíkt fyrirkomulag jákvæð áhrif á kolefnisspor sveitarfélaganna og íbúa þeirra enda verður þetta til þess að umferð minnkar. Jafnframt sparast dýrmætur tími forráðamanna barna, tækifæri skapast til að nýta skólagögn betur, jafnræði meðal skólabarna borgarinnar er tryggt sem og bættur aðbúnaður barna sem standa höllum fæti,“ segir í tilkynningu en undir hana rita: Foreldrafélag Breiðholtsskóla, Foreldrafélag Fellaskóla, Foreldrafélag Hólabrekkuskóla, Foreldrafélag Seljaskóla, Foreldrafélag Ölduselsskóla og SAMFOK (Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík).

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert