Óvenjumörg hálkuslys í nóvember

Það er um að gera að fara varlega í hálkunni, …
Það er um að gera að fara varlega í hálkunni, enda gera slysin ekki boð á undan sér. mbl.is/Golli

Í nóvember síðastliðnum leituðu óvenjumargir á bráðamóttöku Landspítalans eftir hálkuslys. Var þá aðallega um að ræða gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk, en minni háttar áverkum vegna aftanákeyrslna fjölgar einnig þegar hálkan gerir vart við sig.

Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans. Skýringin er einföld, það voru óvenjumargir hálkudagar í nóvember. Svo kom stutt hlýindatímabil, en nú er aftur orðið flughált og því um að gera að vera á varðbergi.

Hálkan fer nefnilega ekki í manngreiningarálit, enda getur öllum orðið fótaskortur þegar undirstaðan er glerhál. „Það er fólk á öllum aldri sem dettur í hálkunni en eldra fólk, sem er sumt komið með beinþynningu, er viðkvæmara fyrir því að brotna og fá alvarlegri afleiðingar af föllum sínum,“ segir Jón Magnús.

Helstu áverkar eftir hálkuslys eru beinbrot á úlnlið og mjöðm, þar sem fólk reynir að bera hendurnar fyrir sig í fallinu, en höfuðhögg, mar og skurðir sjást einnig – þó í minna mæli.

Jón Magnús brýnir fyrir fólki að fara varlega og gæta vel að nærumhverfinu. „Mörg slys verða nálægt vinnustöðum og heimilum fólks, þannig [að] það má endilega nota sand eða salt til að minnka hálkuna í kringum þá staði, en annars nota mannbrodda. Þá er mikilvægt fyrir hjólreiðafólkið að fá sér nagladekk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert