Parið laust úr gæsluvarðhaldi

Rannsókn málsins er á lokametrunum.
Rannsókn málsins er á lokametrunum. mbl.is/Árni Torfason

Par, sem grunað er um að hafa haft milligöngu og viðurværi af vændi þriggja kvenna, var látið laust úr gæsluvarðhaldi í gærkvöldi. Maður­inn er Íslend­ing­ur en kon­an frá Perú en þau voru hand­tek­in 21. nóv­em­ber.

Snorri Birg­is­son, lög­reglu­full­trúi og yf­ir­maður man­sal­steym­is lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, staðfestir við mbl.is að fólkið hafi verið látið laust að loknum skýrslutökum í gærkvöldi.

Við töldum ekki ástæðu til að halda þeim inni. Það er búið að taka skýrslur af þeim og bera undir þau gögn sem við höfum. Við erum á lokametrunum í því að afla frekari gagna og fara yfir þau,“ segir Snorri en ekki var heldur farið fram á farbann yfir fólkinu:

„Við töldum ekki ástæðu til að fara fram á farbann eða neitt slíkt.

Kon­urn­ar þrjár sem grun­ur leik­ur á að hafi verið gerðar út í vændi fóru til síns heima fyr­ir mánaðamót en þær eru, líkt og kon­an sem var í varðhaldi, frá Perú. 

„Það er búið að útiloka mansal og núna er verið að rannsaka grun um að fólkið hafi haft milligöngu og viðurværi af vændi annarra,“ segir Snorri og bætir við að verið sé að leggja lokahönd á síðustu þætti rannsóknarinnar áður en málið verður sent til ákæruvalds. Þar verður tekin ákvörðun um hvort ákæra verður gefin út eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert