Töldu það „ekki nást með góðu móti“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við mátum það þannig að út af þeim kvöðum sem eru á borginni varðandi innkaupaferla og útboð þá myndi það ekki nást með góðu móti. Enda kom það í ljós með ýmis sveitarfélög sem stefndu að því að gera þetta í vetur að krakkarnir voru án námsgagna fyrstu vikur skólaársins. En ég virði vilja þeirra fyrir verkið.“

Frétt mbl.is: Ókeypis námsgögn í Reykjavík

Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, í samtali við mbl.is en tekin hefur verið ákvörðun í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár að grunnskólabörn í Reykjavík fái ókeypis skólagögn næsta vetur. Tillaga þess efnis var lögð fram síðasta vor af Guðfinnu R. Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, vegna yfirstandandi veturs en náði hins vegar ekki fram að ganga.

Frétt mbl.is: „Viljinn var einfaldlega enginn“

„Þetta verður útfært núna á vormánuðum í samráði við skólana og foreldra og verður klárt fyrir næsta vetur hjá okkur,“ segir Dagur. Spurður hvort þetta fyrirkomulag sé komið til að vera segir hann: „Já, ég geri ráð fyrir því. Barnaheill á mikinn heiður fyrir að benda á þetta og berjast fyrir þessu. Við erum sammála og viljum svara þeirra kalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert