Vill upplýsingar um áform Bandaríkjahers

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um fyrirhugaðar framkvæmdir bandarískra stjórnvalda á Keflavíkurflugvelli. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í kvöldfréttatíma sínum en komið hefur fram að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafi í hyggju að verja háum fjárhæðum til þess að endurnýja mannvirki á vellinum.

Frétt mbl.is: Tilbúnir í uppbyggingu á flugvellinum

„Ég hef einmitt óskað eftir nánari upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um hvað felst nákvæmlega í þessum framkvæmdum við flugskýlin. Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart eftir þær umræður sem hafa verið um viðbúnað, sérstaklega í hafinu í kringum okkur. En ég hef líka rætt við utanríkisráðherra um málið og það liggur ekki fyrir að það verði  nein föst viðvera hér á landi til lengri tíma sem er mikilvægt í mínum huga,“ sagði forsætisráðherra.

Katrín sagði ljóst að vitnað sé til samþykktrar þjóðaröryggisstefnu Íslands í stjórnarsáttmálanum. Hluti hennar sé aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningurinn við Bandaríkin þrátt fyrir að VG sé einn flokka andvígur aðildinni að bandalaginu og samningnum. Fyrir vikið sé starfað eftir þeirri stefnu en fylgst grannt með þróun mála. Ekki liggi þó fyrir að fyrirhugaðar framkvæmdir séu í raun mikil breyting.

„Ekki endilega, en eins og ég segi, ég óskað eftir upplýsingum þannig að það liggi bara algjörlega á hreinu hvort þetta er einhver breyting eða hvort þetta mætti frekar kallast bara eðlilegt viðhald á þessum mannvirkjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert