100 fullveldisverkefni kynnt

Fulltrúar verkefnanna 100 sem verða á dagskrá á næsta ári …
Fulltrúar verkefnanna 100 sem verða á dagskrá á næsta ári í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Ljósmynd/Aðsend

100 verkefni sem verða á dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands á næsta ári voru kynnt í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag að viðstöddum fulltrúum verkefna af öllu landinu.

Meðal verkefna er óperan Bræður eftir Daníel Bjarnason, sjónvarpsþættir sem bera heitið Fullveldisöldin og frumflutningur Sinfóníu Íslands á verki eftir Jón Leifs. 

Sérstök afmælisnefnd, sem skipuð var samkvæmt þingsályktun, stendur fyrir hátíðarhöldum um land allt og ákveðið var að fara þá leið að leita til landsmanna um mótun dagskrár afmælisársins.

Auglýst var eftir tillögum að verkefnum á dagskrána. Alls bárust 169 tillögur og verða rúmlega 280 milljónir króna settar í verkefnin.   

Verkefnin 100 eru fjölbreytt og verða unnin um land allt. „Þau bera með sér hugmyndaauðgi og gefa mynd af öflugu menningar- og atvinnulífi í landinu. Verkefnin spanna allt litrófið; þau eru stór og umfangsmikil eða minni um sig, en öll styrkja þau ímynd þjóðarinnar sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar í samfélagi þjóðanna,“ segir í tilkynningu frá afmælisnefndinni.

Mörg verkefnanna fela í sér samstarf einstaklinga, samtaka og stofnana hér á landi og erlendis, en sérstaklega var hvatt til nýsköpunar í verkefnunum.

Þrátt fyrir að nú séu kynnt verkefni á dagskrá afmælisársins er enn hægt að taka þátt í dagskránni. Um miðjan desember verður opnað fyrir skráningu þátttökuverkefna á vef afmælisársins. Þau geta verið stór eða lítil, viðburðir eða samfélagsverkefni.

Verkefnin 100 dreifast um landið.
Verkefnin 100 dreifast um landið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert