Fjallað um JóaPé og Króla í erlendu tímariti

Tónlistarmennirnir JóiPé og Króli.
Tónlistarmennirnir JóiPé og Króli. mbl.is/Eggert

Umfjöllun um tónlistarmennina JóaPé og KRÓLA er að finna í tímaritinu 1843 sem er systurtímarit the Economist. Tónlist þeirra er sögð sú vinsælasta hér á landi um þessar mundir, einkum önnur plata þeirra, GerviGlingur. Bent er á að nafn plötunnar er skopstæling á þungum gullkeðjum sem rapparar eru gjarnan prýddir og ef strákarnir væru með slíkt um hálsinn er næsta víst að það væri nokkurs konar glópagull.   

Minnst er á ungan aldur þeirra og sagt að þeir skapi töfrandi tónlist sem fjallar ekki um peninga, flotta bíla og forkunnarfögur kvendi líkt og textar rappara fjalla gjarnan um. Umfjöllunarefni tvíeykisins vísar til raunveruleika ungmenna á Íslandi þar sem karlpeningurinn gerir meðal annars tilraunir til að ganga í augun á stúlkum á milli þess sem þeir rúnta á fjölskyldubílnum.      

Lagið B.O.B.A. er eitt af þeim vinsælu á landinu og tekin er fram sú staðreynd að fleiri hafa hlustað á lagið á vefsíðunni Youtube.com en allur mannfjöldi Íslands til samans.  

Tímaritið fjallar meira um menningartengd mál en stjórnmál. Umfjöllunin um strákana er hluti af „What the world is…..“ listening to/reading/watching og skýrir þá tengsl við menningu landanna.

Á sömu síðu er fjallað um vinsælustu tónlistina í Ástralíu, Ameríku, Katar og Sádi-Arabíu, El Salvador, Trínidad og Tóbagó.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert