Ófært víða á vegum landsins

mbl.is/Styrmir Kári

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á vegum á Suður- og Vesturlandi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum. 

Hálka eða snjóþekja er einnig á flestum leiðum á Vestfjörðum. Ófært er norður í Árneshrepp.  Sama er að segja um vegi á Norðvestulandi en á Norðausturlandi er hálka og víða éljagangur og skafrenningur. Ófært er á Dettifossvegi.

Austanlands er ófært um Fagradal þar sem veður er mjög slæmt. Stórhríð og snjóþekja er á Möðrudalsöræfum, á Fjarðarheiði er þæfingur og stórhríð, þungfært er upp að göngum Eskifjarðar megin og stórhríð og þungfært í Fannadal.

Hálka eða snjóþekja með miklum skafrenningi er annars á flestum öðrum leiðum á Austurlandi. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði. Snjóþekja eða hálka er með suðausturströndinni og mjög hvasst og sumstaðar skafrenningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert