„Tíminn er ekki með okkur“

Stefán Einarsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu (lengst t.v.), segir mestu möguleikana …
Stefán Einarsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu (lengst t.v.), segir mestu möguleikana til að draga úr losun vera í samgöngum. mbl.is/​Hari

Koltvísýringur í andrúmslofti heldur áfram að aukast og hlutfall hans í hafinu eykst líka með tilheyrandi aukningu á súrnun sjávar. Meðalhitastig hækkar líka, yfirborð sjávar hækkaði um 19 sentimetra á síðustu öld, ís á landi hefur minnkað um 286 gígatonn og ís á Norðurpólnum minnkar um 13% á ári, auk þess sem fimmta hitametið á þessari öld var slegið í fyrra.

Þessar svörtu tölur komu fram í máli Stefáns Einarssonar, sérfræðings hjá umhverfisráðuneytinu, á fundi Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar um nýj­ung­ar í lofts­lags­mál­um sem hald­inn var í Hörpu í morg­un. 

„Þetta er áhyggjuefni og tíminn er ekki með okkur,“ sagði Stefán, sem fór yfir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum í kynningu sinni. Súrnun hafsins feli m.a. í sér að stærri og stærri svæði verði undirmettuð með tilliti til kalks, sem feli í sér að kalkmyndandi lífverur eigi erfiðara og erfiðara með að mynda kalk auk þess að ógna undirstöðulífverum. „Þetta er ógnvekjandi tilraun sem við erum að gera,“ bætti hann við.

Gestir á fundi Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar um nýj­ung­ar í lofts­lags­mál­um …
Gestir á fundi Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar um nýj­ung­ar í lofts­lags­mál­um sem hald­inn var í Hörpu í morg­un. mbl.is/​Hari

Losun vegna samgangna hefur aukist

Ísland eigi líka erfitt með að standast skuldbindingar sínar í loftslagsmálum eins og staðan er í dag. „Losun frá stóriðju í landinu var að aukast frá 1990 fram til ársins 2009, en hefur gengið niður síðan.“ Losun utan viðskiptakerfisins, þ.e. sá hluti losunar sem tilheyrir ekki sameiginlegum samningum EES-ríkja, hafi náð hámarki 2007 og farið svo að ganga niður eftir hrun. „Sú þróun hefur hins vegar staðnað hin síðari ár og hefur raunar aukist eilítið aftur að undanförnu,“ sagði Stefán.

Um 33% af losun utan viðskiptakerfisins eru síðan að sögn Stefáns til komin vegna samgangna, 24% vegna landbúnaðar, 18% vegna fiskveiða, 9% vegna úrgangs, 7% vegna jarðhita, 4% vegna byggingariðnaðar og 5% eru af öðrum orsökum.

„Losun vegna fiskveiða hefur minnkað. Losun vegna samgangna hefur hins vegar aukist og hún hefur staðið í stað í landbúnaði,“ sagði Stefán. „Ef við horfum á stóru stykkin í þessari köku þá sjáum við hvar er mest að hafa og það er í þessum stóru geirum. Við þurfum þó engu að síður að ná árangri á öllum þessum sviðum og kannski má segja að það sé visst tilefni til bjartsýni í því að við getum gert svo miklu betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert