Upplifa karllæg viðhorf í lagadeildinni

Í gær stigu konur í réttarvörslukerfinu fram og sögðu sína …
Í gær stigu konur í réttarvörslukerfinu fram og sögðu sína sögu. Femínistafélag innan lagadeildar HÍ tekur undir með konunum. Ljósmynd verilymag.com

Það er skammarlegt að í kerfi sem meðal annars á að sjá um að vernda þolendur ofbeldis þrífist ofbeldi, áreitni og mismunun. Gera þarf breytingu þar að lútandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu frá Femínistafélaginu Auði, nýstofnuðu femínistafélagi stúdenta við lagadeild Háskóla Íslands. 

Yfirlýsingin kemur í kjölfar yfirlýsingar frá konum í réttarvörslukerfinu sem birt var í gærkvöldi en henni fylgdu 45 reynslusögur af kynferðislegri áreitni, ofbeldi og kvenfyrirlitningu innan réttarvörslukerfisins.

Allir vinnuveitendur þurfi að axla ábyrgð

Þetta er kerfi sem mörg okkar stefna á að starfa í að námi loknu, en ljóst er að margt þarf að breytast svo vinnuumhverfið hljómi spennandi í hugum ungra femínískra lögfræðinga,“ segir í yfirlýsingunni. Taka félagsmenn undir orð þeirra sem stigu fram í gær um að vinna þurfi gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni verði að vera sett í forgang og að allir vinnuveitendur þurfi að axla ábyrgð á að uppræta vandamálið.

Gagnrýnir félagið sérstaklega að þetta viðgangist innan kerfis sem eigi að vernda þolendur. „Kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun er staðreynd í þessari stétt eins og öðrum stéttum samfélagsins. Meðlimir femínistafélagsins Auðar vita þó að mörkin eru skýr og það á fólk sem vinnur í kerfinu einnig að vita. Það er því skammarlegt að í kerfi sem meðal annars á að sjá um að vernda þolendur ofbeldis þrífist ofbeldi, áreitni og mismunun. Við krefjumst þess að breytingar verði hér á.“ 

Beina orðum sínum að lagadeild Háskóla Íslands

Að lokum beinir félagið orðum sínum að lagadeild skólans og kalla á breytingar þar. „Þá undra meðlimir félagsins sig einnig á því að þrátt fyrir að konum sem stunda nám við lagadeild Háskóla Íslands hafi farið fjölgandi og þær séu nú fleiri en karlar í deildinni upplifi þær deildina oft karllæga í viðhorfum. Þessu þarf jafnframt að breyta,“ segir í yfirlýsingunni. Segist félagið taka skýra afstöðu í þessum málaflokki. „Kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á ekki að líðast. Breytum þessu svo það verði ekki fráhrindandi fyrir nýútskrifaða lögfræðinga sem langar að vinna af hugsjón í réttarvörslukerfinu að stíga þar inn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert