Hótelbréfsefni og hættuleg áramót

Jarvis Cocker er á leiðinni til Íslands til tónleikahalds í …
Jarvis Cocker er á leiðinni til Íslands til tónleikahalds í Hörpu.

Jarvis Cocker er meðal aðsópsmestu persónuleika í bresku poppi síðasta aldarfjórðunginn eða svo, þrátt fyrir rólegt yfirbragð. Hann hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og er væntanlegur í mánaðarlok til tónleikahalds. Hér ræðir hann nýju plötuna, hljómsveitina Pulp sem hann leiðir, hótelherbergi og hin hættulegu áramót sem Íslendingar halda. 

Aðventan er gengin í garð þegar við Jarvis tökum tal saman símleiðis. Hann hljómar eins og ég átti von á, hæglátur, vel máli farinn og með lúmskan húmor. Ég spyr hvort hann sé kominn í hátíðarskap, svona í desemberbyrjun. Svo vitnað sé í Common People, einn allra stærsta smell hljómsveitarinnar Pulp:

„Ég veit ei hví en ég varð að byrja einhvers staðar – svo ég byrjaði þar.“

Jarvis hugsar sig um. „Ef satt skal segja þá vonast ég til þess að komast í hátíðarskap eftir því sem líður á daginn. Ég er nefnilega að undirbúa útvarpsþátt [í þáttaröðinni Sunday Service á BBC Radio 6] og hann fjallar öðrum þræði um jólainnkaup. Ef til vill skilar það mér í hátíðlegt hugarástand.“

Innblástur frá hótelherbergi

Nýjasta sólóplata Cockers nefnist Room 29 (áður komu út Jarvis árið 2006 og Further Complications árið 2009) og er hún unnin í samstarfi við kanadíska tónlistarmanninn Chilly Gonzales. Platan er óður til hins goðsagnakennda lúxushótels, Chateau Marmont, sem stendur við Sunset Boulevard í Los Angeles, og þar er meðal annars að finna hálfgert ör-lag, 1:21 mínúta að lengd, sem nefnist Hotel Stationery. Það kemur á daginn að Jarvis deilir áhuga mínum á vönduðu hótelbréfsefni og sultuslakur málrómur hans verður nokkru ákafari umhverfis þetta umræðuefni.

Íslandsvinurinn Cocker í sveiflu í Laugardalshöllinni árið 1996.
Íslandsvinurinn Cocker í sveiflu í Laugardalshöllinni árið 1996.

„Innslagið um hótelbréfsefni var hluti þess að reyna að gera andrúmsloftið á plötunni á þann hátt að hún ætti sér stað inni á hótelherbergi. Í laginu má heyra sjálfblekunginn minn líða í lykkjum og snúningum yfir síðu af pappír því ég var raunverulega að skrifa á bréfsefni frá Chateau Marmont. Þeir eru með framúrskarandi bréfsefni, verð ég að segja. Ef þú gistir á hótelinu þá skaffa þeir bréfsefni með nafninu þínu þrykktu í pappírinn, sem bíður þín þegar þú kemur inn á herbergið.“

Ég dáist ekki lítið að þessu og Jarvis er sammála um að þetta skipti máli. „Finnst þér það ekki flott? Mér finnst það virkilega næs.“

Skriffærin verða líka að vera þess virði að nappa þeim, bæti ég við.

„Góður punktur. Annars hef ég mig ekki í að skrifa heilu bréfin en ég legg mig eftir að finna póstkort til að senda. Það þarf nefnilega að hafa fyrir því að finna þau því nú til dags því fólk getur átt rafræn samskipti með auðveldum hætti og þeim fækkar sem senda póstkort. En ég hef reyndar mjög gaman af því að leita að þeim og sæki helst í póstkort með gömlum myndum þegar ég ferðast og sendi vinum þegar vel ber í veiði.“

Jarvis bætir því við að hann hafi verið aðdáandi Chilly Gonzales um skeið og hann hafi oft hlustað á sólóplötur þess kanadíska þar sem hann leikur á píanó; í þeim hafi falist kærkomin slökun. „Þegar við í Pulp komum saman á ný árið 2012 til tónleikahalds lékum við meðal annars á Coachella hátíðinni í Los Angeles. Ég gisti á Chateau Marmont meðan við vorum í Kaliforníu og fyrir tilviljun fékk ég uppfærslu yfir í herbergi 29, því hótelið var yfirbókað. Þegar ég kom inn í herbergið blasti þar við mér píanó og ég leit á þetta sem tákn.“

Jarvis Cocker er hæglátur maður og yfirvegaður í spjalli. Öðru …
Jarvis Cocker er hæglátur maður og yfirvegaður í spjalli. Öðru máli gegnir þegar á sviðið er komið.

Hann bætir því við að hann hafi fengist við eitt og annað smálegt með Gonzales en þeir hafi oft rætt um að gaman væri að ráðast í samstarfsverkefni sem væri stærra í sniðum. „Þegar ég sá svo píanóið inni á hótelherbergi hugsaði ég sem svo: „Hananú, þetta er málið. Þetta æpir á að vera gert að hljómplötu.“ Hugmyndin varð semsagt til þar og þá, að láta píanóið segja söguna af því sem hafði átt sér stað í þessu tiltekna hótelherbergi. Chilly sá um tónlistina, ég um textana, og þetta verkefni hefur verið í vinnslu með hléum síðan hugmyndin kviknaði fyrir fimm árum.“

Hið sofandi eldfjall

Eins og flestir sem eldri eru en tvævetur vita sló Jarvis í gegn með hljómsveitinni Pulp fyrir rúmum 20 árum síðan. Platan His 'N' Hers vakti fyrst almennilega athygli á þeim fimmmenningum árið 1994 en með Different Class sló sveitin rækilega í gegn árið 1995 á heimsvísu og fór með himinskautum næstu misserin. Síðasta plata sveitarinnar, We Love Life, kom út árið 2002 og ef frá er talin áðurnefnd tónleikaröð árið 2012 hefur sveitin verið í dvala. Sofandi eldfjall, eins og Jarvis lýsir stöðunni. Öll nótt er semsé ekki úti enn hvað endurkomu Pulp varðar?

Er máske gosórói í vændum?

Jarvis veit sem er að Íslendingar eru vel kunnugir virkum eldfjöllum sem og sofandi, og hlær við.

„Málið með virkni eldstöðva er að hún er ekki endilega fyrirsjáanleg með góðu móti. Svo ég get ekki sagt almennilega til um það. Hitt er annað mál að við sem skipum sveitina erum öll á lífi, sem er viss kostur,“ segir hann.

Cocker hyggst bera nokkur glænýlög á borð fyrir tónleikagesti þann …
Cocker hyggst bera nokkur glænýlög á borð fyrir tónleikagesti þann 30. desember.

Hið hábreska, hárbeitta og þurra skopskyn. Húmorískt gúrmeti, á minn sann.

„Við kunnum líka ennþá vel við hvert annað, sem er líka kostur. Það var virkilega gaman að koma aftur saman fyrir nokkrum árum og spila saman. Sá túr varði í eitt og hálft ár og innihélt að mínu viti nokkra af bestu tónleikum sem við höfum nokkurn tíma spilað. En við höfum öll verið að fást við aðra hluti og það þarf að taka tillit til þess. Ég hef sjálfur verið að semja lög sem ég áætla að gefa út einhvern tímann á næsta ári. Ég kem reyndar til með að máta nokkur þeirra á íslenskum áheyrendum þegar ég spila í Hörpu núna daginn fyrir gamlársdag.“

Í loftvarnabyrgi á gamlárskvöld

Pulp kom til Íslands, sælla minninga, árið 1996 og lék á tónleikum sem eru tónleikagestum enn í fersku minni og Jarvis kom ennfremur hingað til lands í aprílmánuði árið 2002 og þeytti þá skífum fyrir gesti á Gauknum. En hefur hann komið til landsins síðan þá?

„Já, ég kom í smá frí með syni mínum fyrir þremur árum síðan og við skemmtum okkur feikivel. Ég átti spjall við Megas á kaffihúsi og skoðaði náttúruna í nágrenni Reykjavíkur, fossa og fleira slíkt.“

Eins og við er að búast er Jarvis ekki að eltast við Gullfoss eins og megnið af erlendum gestum. Hann fór og tékkaði á Gljúfrabúa í staðinn, nema hvað.

„Við skoðuðum hann um hálf-fjögur um nótt, því það var ennþá dagsbjart úti.“

Annað verður uppi á teningnum þegar Jarvis kemur til landsins í þetta sinnið, eins og gefur að skilja. Nú ríkir svartasta skammdegið, refjalaust. Honum er það ljóst því hann hefur einnig komið til landsins og verið yfir áramót. Þá varð honum ekki um sel, að eigin sögn. Var það ef til vill kappsöm áfengisdrykkja heimamanna sem skaut honum skelk í bringu?

„Nei, mér var í raun sama um drykkjuna því ég er vanur henni. Ég er frá Sheffield, sjáðu til, og þar er fólk vant því að vera skjóðufullt. Það voru flugeldarnir sem mér leist ekki allskostar á. Hvarvetna var fullt fólk að fleygja og skjóta flugeldum í allar áttir. Það var skuggalegt. Ég þarf að finna mér eitthvert loftvarnabyrgi til að dveljast í meðan sprengingarnar ganga yfir í þetta sinn!“

Útvarpsmaðurinn Jarvis Cocker bregður hér á leik með raftónlistarmanninum Brian …
Útvarpsmaðurinn Jarvis Cocker bregður hér á leik með raftónlistarmanninum Brian Eno.

Nýtt efni í bland við gamalt

Jarvis er í besta skapi þegar hér er komið sögu og hlakkar til að bera nýtt efni á borð þegar hann leikur á tónlistarhátíðinni Norður og niður í lok ársins. „Það verður efni af eldri plötunum í bland við glæný lög og ég hlakka satt að segja mikið til.“

Ég óska honum góðrar dvalar á landinu þegar þar að kemur og segist vona að hótelherbergið sem hann gistir í þetta sinn verði honum innblástur að annarri hótelplötu.

Í það minnsta vona ég að hann fái þokkalegt hótelbréfsefni, hvar sem hann gistir.

Jarvis skellir upp úr.

„Það er eitthvað sem ég kemst að við komuna, býst ég við. Takk kærlega fyrir spjallið.“

Hótelrekendur hérlendis taki það til sín; þeim ætti hér með að vera ljóst hvað til síns friðar heyrir.

Þjónað fyrir altari svalheitanna

Smekkvísir hlustendur um víða veröld hafa notið þess að hlýða á Jarvis Cocker og útvarpsþátt hans, Sunday Service, sem er aðgengilegur á tónlistarrás BBC, Radio 6, ásamt því að þætti má finna á netinu til áheyrnar. Þátturinn er meðal þess sem hann hefur helst fengist við meðan hljómsveitin Pulp liggur í dvala, en sá þyrnirósarsvefn er nú orðinn um 15 ár og ekki mikið sem gefur til kynna að hún sé líkleg til að rumska á næstunni. Hitt er þó annað mál að eldfjöll geta gosið þegar minnst varir, eins og hann bendir á sjálfur í viðtalinu hér á opnunni. Þá hefur Jarvis samið lög fyrir flytjendur á borð við hljómsveitina AIR, söngkonurnar Charlotte Gainsbourg, Nancy Sinatra og Marianne Faithfull.

Í þáttunum Sunday Service fær hann góða gesti í spjall um alla mögulega heima og geima, og oftar en ekki leysir hann ýmsa áhugaverða hluti úr læðingi milli þess sem áhugaverð tónlist leikur um hlustir áheyrenda; sumt er þar þekkt, annað löngu gleymdar og fáheyrðar gersemar. Af nægu er líka að taka því alþekkt er að plötusafn hans er gríðarmikið.

Gestir hans eru alla jafna með áhugaverðasta móti sömuleiðis. Sem dæmi má nefna að þáttur hans frá síðasta vetri þar sem hann tók á móti Brian Eno var slíkt hnossgæti að undirritaður hlustaði fjórum sinnum á hann á tveggja vikna tímabili, slík var yndisáheyrnin.

Vikuskammtur á sunnudögum í næstum átta ár

Þættirnir hófu göngu sína árið 2010 og hefur kappinn hrist fram tveggja tíma þátt á hverjum sunnudegi allar götur síðan, með einstaka hléum þó þegar hann hefur sinnt öðrum hugaðrefnum til skemmri tíma. Hann tók sér slíka pásu í nokkra sunnudaga nú á haustdögum og þá hlupu í skarðið ekki minni spámenn en verðlaunaleikstjórinn Sam Mendes, leikararnir Cillian Murphy og Russell Crowe, og grínistinn Josie Long.

Jarvis ætlar að taka eina af pásum sínum frá útvarpsþættinum frá og með næstkomandi áramótum og í þetta skipti er það um óákveðinn tíma því í staðinn mun sjónvarpskonan og rithöfundurinn Amy Lamé sjá um nýjan þátt á sama tíma. Jarvis hefur þó látið hafa eftir sér að hér sé aðeins um „bless í bili“ að ræða og aldrei að vita nema þráðurinn verði tekinn upp að nýju við síðara tækifæri. Þangað til má mæla með þeim þáttum af Sunday Service sem aðgengilegir eru á netinu, bæði á heimasíðu BBC 6 Radio og svo víðar á netinu. Spyrjið bara Google.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert