Ráðgáta um „stolinn“ bíl

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu glímdi í vikunni við allsérstæða ráðgátu eftir að fullorðin kona tilkynnti um stuld á bíl sínum við verslunarmiðstöð.

Konan var sjálf með lykilinn að bílnum meðferðis og staðfesti jafnframt að aukalykillinn væri á öruggum stað á heimili hennar. „Þetta var því nokkur ráðgáta,“ segir í færslu lögreglunnar um málið á Facebook, „en málið var hið bagalegasta að öllu leyti eins og gefur að skilja“.

Ekki bætti heldur úr skák að jólagjafir voru í bílnum þegar „þjófurinn“ lét til skarar skríða. Við brottför frá lögreglustöðinni var þó ákveðið að konan myndi snúa aftur á bifreiðastæðið, leita enn betur að bílnum og staðfesta svo endanlega að hann væri horfinn. Ekki liðu margar mínútur uns aftur var hringt i lögregluna og tilkynnt að nú væri bíllinn kominn í leitirnar og jólagjafirnar sömuleiðis.„ Skýringin á „þjófnaðinum” reyndist einfaldlega vera sú að bílnum var aldrei stolið, heldur hafði konan einfaldlega gleymt því að lokinni innkaupaferðinni hvar hún lagði bílnum og síðan gert ráð fyrir hinu versta!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert