Slökkvistarf enn í gangi

Eldurinn blossaði upp rétt eftir klukkan 23 í gærkvöld í …
Eldurinn blossaði upp rétt eftir klukkan 23 í gærkvöld í húsnæði Skipaþjónustu HG. Ljósmynd/Aðsend

Enn er unnið að því að slökkva í glæðum í húsnæði á Suðurtanga á Ísafirði. Mikill eldur blossaði upp í húsinu um klukkan 11 í gærkvöldi og hafa um 50 manns tekið þátt í slökkvistarfi og aðgerðum í nótt. Brugðið var á það ráð að rífa húsið svo eldurinn myndi ekki berast í nærliggjandi hús.

Eldurinn kom upp í húsnæði Skipaþjónustu HG að Árnagötu 3. Skammt frá stendur gamalt timburhús við Suðurgötu 10 og til að forða því húsi frá eyðileggingu var í nótt ákveðið að brjóta niður húsnæði Skipaþjónustunnar. 

Árnagötu og Kristjánsgötu var lokað í nótt og verða þær ekki opnaðar fyrr en að vettvangsrannsókn rannsóknardeildar lögreglunnar Vestfjörðum verður lokið. Hún mun hefjast er slökkt hefur verið í öllum glæðum.

Hlynur Steinn Þorvaldsson, varðstjóri lögreglunnar á Ísafirði, segir í samtali við mbl.is að þó að port hafi verið á milli húsanna tveggja hafi verið ákveðið að brjóta hús Skipaþjónustunnar, sem einnig er timburhús, niður „til þess að ná að bjarga hinu húsinu“. Hann segir að húsið sem eldurinn kom upp í hafi orðið alelda á skömmum tíma og engu hægt að bjarga. „Því var fórnað.“

Um klukkan 4 í nótt var dregið nokkuð úr viðbúnaði á vettvangi. Um 50 manns hafa að öllum líkindum komið að slökkvistarfinu með ýmsum hætti í nótt, m.a. voru björgunarsveitarmenn fengnir til að aðstoða við vegalokanir. Mest hefur þó mætt á slökkviliðsmönnum.

Hlynur Steinn segir að froststilla sé á vettvangi og það hafi að minnsta kosti ekki skemmt fyrir. „En það gerði það að verkum að eiginlega allir íbúar Skutulsfjarðar fundu fyrir [reykjar]lyktinni. Hún fyllti hérna fjörðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert