Eins og ég sé að fremja hjúskaparbrot

Davíð Már Stefánsson.
Davíð Már Stefánsson.

„Mér líður stundum eins og ég sé að fremja hjúskaparbrot, þegar ég hoppa úr einu verkefni yfir í annað. Ætli ég sé ekki með átta eða níu ólík verkefni í gangi núna. Á móti kemur að maður má ekki vera vanþakklátur fyrir að hafa nóg að gera. Sagt er að til sé tvennskonar „busy“, gott og slæmt. Hjá mér er þetta klárlega gott „busy“. Svo er heldur ekki leiðinlegt þegar maður sér afraksturinn. Þetta er skemmtilegur leikur!“

Þetta segir Davíð Már Stefánsson handritshöfundur. Hann stundar meistaranám í handritsgerð við Columbia-háskólann í New York en hefur verið meira og minna í Los Angeles undanfarna sex mánuði eftir að hafa komist á samning hjá The Television Academy, sem sér meðal annars um Emmy-verðlaunin.

„Þessir aðilar velja einn ungan handritshöfund á ári til að koma inn í dramaprógrammið hjá sér, flokkarnir eru fleiri, og varð ég fyrir valinu að þessu sinni. Það er mikill heiður,“ útskýrir Davíð Már. „Markmiðið er að koma þeim sem eru valdir inn á vinnumarkað hérna í Hollywood og framleiðslufyrirtækin keppast því um að fá þessa fáu einstaklinga sem eru valdir í lið með sér. Stofnunin valdi Josephson Entertainment handa mér. Það er fyrirtæki Barry Josephson sem hefur framleitt mikið af stórum kvikmyndum og þáttum. Ég hef verið að skrifa drög að handritum fyrir þetta framleiðslufyrirtæki núna síðustu vikur og meðal annars tekið þátt í fundum þar sem við erum að koma þessu efni á framfæri við risa á borð við Warner Bros. og Sony. Það er frekar steikt að sitja svona fundi en mjög skemmtilegt og ótrúleg reynsla að fá nasaþefinn af því hvernig þetta gengur allt saman fyrir sig hérna í Hollywood. Heilt á litið er þetta frábært tækifæri fyrir mig og smá peningur að auki. Það er ekki langt síðan ég var að safna dósum í Breiðholtinu.“

Hann hlær.

Talandi um framfærslufé þá fékk Davíð Már styrk úr sjóði Leifs Eiríkssonar fyrr á árinu, tæplega þrjár milljónir króna, sem hann segir hafa hjálpað sér mikið. Handritshöfundar þurfa jú að hafa í sig og á – rétt eins og aðrar stéttir manna.

Sitthvað fylgir verkefnum eins og Davíð Már vinnur að í Los Angeles, svo sem boð á Emmy-verðlaunahátíðina. Þá voru raunar góð ráð dýr fyrir Davíð Má sem klæddist síðast jakkafötum í fermingu sinni. „Sem betur fer gat félagi minn bjargað mér. Þetta var athyglisverð lífsreynsla; hátíðin var eins og útúrsteruð og frekar leiðinleg útskrift í Háskóla Íslands.“

Ég heyri hann brosa.

Lærdómsrík dvöl

Davíð Már segir dvölina í Los Angeles hafa verið mjög lærdómsríka. „Það kom mér á óvart hvað þetta er mikið spil og pólitík. Ég var svo naífur að halda að þetta snerist bara um að vera með góð handrit. Svo er ekki. Þetta snýst mun meira um sambönd en hæfileika. Sumir segja að þetta sé 90% sambönd og 10% hæfileikar. Ég tek ekki alveg svo djúpt í árinni en þessi hlutföll eru samt ekki fjarri lagi. Það er mikið af vondu efni í umferð. Stundum er nóg að þekkja rétta fólkið.“

Spurður hvort hann sé farinn að gera það sjálfur eftir hálft ár í borginni svarar Davíð Már. „Ég er kominn með sambönd, já. Hvað sem út úr því kann svo að koma. Sumir sem ég hef kynnst eru hákarlar, aðrir ekki. Alla vega ekki enn.“

Hann viðurkennir að hann gæti verið betri í þessum þætti starfsins, það er að koma sér á framfæri. „Það fellur ekkert alltof vel að mínum karakter en maður verður að láta sig hafa það. Án þess að kynna sig og blanda geði við fólk kemst maður ekkert áfram í þessu fagi. Maður ber bara olíu á tálknin fyrir samkvæmin og sér hverju það skilar. Þar gerast hlutirnir ekki síst í þessari borg, í partíunum.“

Spurður hvort þau séu jafn alræmd í Los Angeles og sagan hermir hlær Davíð Már við. „Ég hef alveg lent í subbulegum sundlaugapartíum þar sem eldgamlar risaeðlur eru að spóka sig með tæplega tvítug módel á kantinum. Sú menning virðist því miður enn lifa góðu lífi þrátt fyrir mjög þarfa umræðu upp á síðkastið um kerfisbundna kynjamismunun og kynferðisofbeldi innan Hollywood. En annars er auðvitað allur gangur á þessu. Það virðist endalaus orka í þessu liði. Annars líður mér sjálfum alltaf best heima að skrifa.“
Og það segir hann ekki bara af því að móðir hans er að lesa!

Samkeppnin er mikil og lítið má út af bera. „Það eru þúsundir með sama draum og maður sjálfur og örugglega margir með meiri hæfileika. Þá er þetta spurning um að vilja þetta meira en hinir og leggja harðar að sér.“

Nánar er rætt við Davíð Má í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert