Fjölmenni í Borgarleikhúsinu

Upplestur á #metoo-sögum í Borgarleikhúsinu.
Upplestur á #metoo-sögum í Borgarleikhúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Fjöldi fólks er mættur í Borgarleikhúsið til þess að hlýða á konur úr mismunandi starfsstéttum samfélagsins lesa upp frá konum frásagnir sem litið hafa dagsins ljós í #metoo-byltingunni hér á landi að undanförnu. Viðburðurinn er haldinn í tilefni alþjóðadags mannréttinda á lokadegi 16 daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.

Upphaflega stóð til að halda upplesturinn á Nýja sviði leikhússins, en sökum eftirspurnar var viðburðurinn færður á Stóra sviðið. Meðal þeirra sem blaðamaður hefur komið auga á meðal gesta eru Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Fjöldi íslenskra leikkvenna er einnig á svæðinu, en íslenskir karlmenn í sviðslistum sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis fyrr í dag að þeir styddu við baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi.

Meðal þeirra sem lesa munu sögur kvenna á Stóra sviði Borgarleikhússins í dag eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, leikkonurnar Kristbjörg Kjeld, Halldóra Geirharðsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir, tónlistarkonan Hildur, Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingiskona, Hrafnhildur Lúthersdóttir ólympíufari, Björk Eiðsdóttir ritstjóri og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri.

Fjölmenni fylgist með upplestri á sögum tengdum #metoo í Borgarleikhúsinu.
Fjölmenni fylgist með upplestri á sögum tengdum #metoo í Borgarleikhúsinu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert