Lögmaður handtekinn og gögn haldlögð

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Aðalmeðferð í máli fjög­urra ein­stak­linga, þriggja karl­manna og einn­ar konu, sem ákærð eru fyr­ir pen­ingaþvætti, hélt áfram í Héraðsdómi Reykja­ness í dag. Fyrri hluti aðalmeðferðar fór fram í héraðsdómi á föstudag þar sem allir sakborningar gáfu skýrslu. Þá komu einnig nokkur vitni fyrir dóminn. Í dag kom fyrir dóminn lögmaður eins ákærða, en hann sat á tímabili í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Er um að ræða umfangsmikið mál sem teyg­ir anga sína meðal ann­ars til Suður-Kór­eu, Hong Kong og Ítal­íu. Þrír sak­born­ing­anna eru Íslend­ing­ar en sá fjórði er níg­er­ísk­ur. Heild­ar­upp­hæðin sem til rann­sókn­ar var í mál­inu nam rúm­um fimm­tíu millj­ón­um króna sem send­ar voru hingað til lands í tveim­ur milli­færsl­um, sú fyrri upp á rúm­ar 30 millj­ón­ir og síðari upp rúm­ar 20 millj­ón­ir. Voru fjármunirnir lagðir inn á reikning fyrirtækis í eigu eins ákærða í málinu, Gunnars Rúnars Gunnarssonar, en hann er sá eini með sakaferil á bakinu.

Um var að ræða illa fengið fé sem rakið er til fjársvika sem áttu sér stað í lok árs 2015. Hluti peninganna var svo fluttur úr landi meðal annars með millfærslum inn á bankareikning í Hong Kong.

Lögmaðurinn sem kom fyrir dóm í dag var upphaflega verjandi annars íslenska karlmannsins, en sá virðist hafa verið fenginn að málinu til að aðstoða við að millifæra peningana úr landi. Peningarnir voru millifærðir af reikningi Gunnars Rúnars yfir á hans reikning áður en þeir voru millifærðir til Hong Kong.

Maðurinn sagði fyrir dómi á föstudag að hann hefði hringt í lögmann sinn og ráðfært sig áður en hann ákvað að aðstoða við að millifæra peningana. Lögmaðurinn hefði sagt honum að það væri ekki ólöglegt að aðstoða við að millifæra fjármunina með þeim hætti sem skjólstæðingur hans kynnti fyrir honum.

Var með vangaveltur um gjaldeyrishöft

Lögmaðurinn sagði fyrir dómi í dag að maðurinn hefði sagt sér að vinafólk hans væri í viðskiptum og þyrfti að millifæra peninga erlendis. Það hafi gengið illa en maðurinn sagðist ekki skilja af hverju. Lögmaðurinn sagði hann hafa spurt sig út í gjaldeyrishöft, sem hann var þó ekki sérfræðingur í, en tjáði skjólstæðingi sínum að það væri óheimilt að flytja peninga óheft á milli landa. Það þyrfti alltaf að vera ástæða fyrir peningaflutningunum.

Aðspurður sagðist lögmaðurinn ekki kannast við að hafa sagt skjólstæðingi sínum að það væri löglegt að hann millifærði peningana inn á sinni eigin reikning og þaðan áfram til Hong Kong.

„Hann var með vangaveltur um hvort það væri óheimilt að flytja peninga á milli landa. Þetta kvöld minnir mig að hann hafi spurt hvort það væri í lagi að hann millifærði peningana fyrir þau. Það hvort þau myndu flytja pening á einhvern reikning var ekki eitthvað sem var spurt um. Ef það hefði legið fyrir í þessu símtali að um þjófnað hefði verið að ræða hefði ráðgjöf mín verið öðruvísi,“ sagði lögmaðurinn. Hann tók fram að maðurinn hefði gefið sér leyfi til að upplýsa um samskipti þeirra á milli.

Starfsaðferðir sem þekkjast í Suður-Ameríku

Lögmaðurinn gerðist svo verjandi mannsins á rannsóknarstigi málsins, en hann sagðist fyrir dómi hafa á ákveðnum tímapunkti verið plataður í skýrslutöku með skjólstæðingi sínum og handtekinn þegar hann kom á staðinn. Sat lögmaðurinn í gæsluvarðhaldi í þrjá sólarhringa vegna gruns lögreglu um aðild að málinu. Þá var gerð hjá honum húsleit.

Spurður hvaða skoðun hann hefði á gæsluvarðhaldinu sagði lögmaðurinn svona starfsaðferðir ekki þekkjast hér á landi. Þær þekktust kannski í Suður-Ameríku. Hann sagði öll gögn lögmannsstofunnar hafa verið gerð upptæki, þar á meðal öll gögn er vörðuðu þáverandi skjólstæðing hans, minnispunktar og fleira úr skýrslum. Sagði hann slíkt ekki eiga sér neitt fordæmi og hann velti fyrir sér hvort fyrrverandi skjólstæðingur hans fengi réttlæta málsmeðferð fyrir dómi.

Mál gegn lögmanninum var fellt niður þegar ákæra á hendur sakborninginum fjórum var gefin út.

Aðspurður hvort honum hefði fundist brotið á fyrrverandi skjólstæðingi sínum sagði lögmaðurinn: „Já, gjörsamlega. Héraðssaksóknari tekur gögnin hans, varnagögnin hjá manninum,  sem ég held að eigi sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarsögu. Þá var mér gert að upplýsa um mín samskipti við hann langt fyrir utan hans hlut í málinu.“

Í kjölfar þess að lögmaðurinn var handtekinn og færður í gæsluvarðhald var skipt um verjanda í málinu, enda lögmanninum ekki gert kleift að vera áfram verjandi mannsins, að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert