Andlát: Jóhannes Kristjánsson

Jóhannes Kristjánsson.
Jóhannes Kristjánsson.

Jóhannes Kristjánsson bifvélavirkjameistari lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri laugardaginn 2. desember. Hann var fæddur 25. nóvember 1921 og því nýorðinn 96 ára.

Jóhannes var frá Syðra-Hvarfi í Skíðadal, sonur hjónanna Soffíu Jóhannesdóttur og Kristjáns Jakobssonar vélstjóra. Systkini Jóhannesar voru Guðrún, Ásgeir og Oddný Dúfa.

Foreldrar Jóhannesar fluttust til Akureyrar fljótlega eftir að hann fæddist. Bjó hann fyrstu árin hjá móðursystkinum sínum á Syðra-Hvarfi en flutti til foreldra sinna þegar hann hóf skólagöngu.

Ungur lærði hann bifvélavirkjun og stofnaði bifreiðaverkstæði í eigin nafni, í félagi við föður sinn og bróður. Verkstæðið rak Jóhannes í áratugi við Gránufélagsgötu á Oddeyri, allt framundir 1990, þegar hann veiktist og settist í helgan stein.

Jóhannes var mikill veiðimaður; landskunnur fyrir bæði skot- og stangveiði. Þá átti hann trillu í áratugi og var ekki síðri aflakló þegar hann reri til fiskjar en með byssu eða stöng.

Eiginkona Jóhannesar er Ólafía Jóhannesdóttir, sem varð 93 ára síðastliðið sumar. Þau hjónin eignuðust fimm börn; Guðmundur Páll, sem var elstur, er látinn, en Kristján, Jóhannes Haukur, Sigurður og Soffía Freydís lifa föður sinn. Jóhannes og Ólafía bjuggu áratugum saman í Eyrarvegi 33 á Akureyri en fluttu á dvalarheimilið Hlíð um mitt þetta ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert