Árásarmaðurinn samstarfsfús við lögreglu

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir yfirheyrslur yfir árásarmanninum hafa gengið ágætlega.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir yfirheyrslur yfir árásarmanninum hafa gengið ágætlega. mbl.is/Árni Sæberg

Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi vegna morðsins á hinum albanska Klevis Sula, sem lést eftir að hafa verið stunginn með hnífi á Austurvelli aðfaranótt sunnudagsins 3. desember, hefur verið samstarfsfús við lögreglu. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Yfirheyrslur hafa gengið ágætlega, þó að lögregla telji ekki tímabært að greina frá því hvað hafi komið þar fram,“ segir Grímur.

Maðurinn, sem er Íslendingur á þrítugsaldri, hefur ekki komið við sögu lögreglu áður og segir Grímur venju að ákæruvaldið fari fram á geðrannsókn í málum á borð við þetta. Hann kveðst þó ekki vita hvort geðlækir hafi enn rætt við manninn.

Óska eftir myndum úr símum af árásinni

Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til 15. þessa mánaðar og segir Grímur að þá verði ákveðið hvort farið verði fram á framlengingu varðhaldsins.

Árásin og aðdragandi hennar er þó að taka á sig mynd, en lögregla hefur verið að skoða myndbönd úr eftirlitsmyndavélum við Austurvöll. Grímur segir lögreglu þó einnig hafa áhuga á að fá til skoðunar myndir og myndbönd sem almenningur kunni að hafa tekið með símum sínum. Engar slíkar myndir hafa borist lögreglu enn sem komið er, en lögregla hefur undanfarið yfirheyrt fjölda vitna að árásinni.  

„Myndin af því hvað gerðist er orðin nokkuð skýr. Við höfum þó ekki verið að greina frá því, en það fer að koma að því,“ segir Grímur.

Annar maður, sem var á ferð með Sula og sem árásarmaðurinn stakk einnig með hníf, hef­ur verið út­skrifaður af Land­spít­al­an­um og er lögregla búin að yf­ir­heyra hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert