Greindi frá áformum um kolefnishlutleysi

Katrín Jakobsdóttir greindi frá áformum ríkisstjórnar Íslands í umhverfis- og …
Katrín Jakobsdóttir greindi frá áformum ríkisstjórnar Íslands í umhverfis- og loftslagsmálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá áformum nýrrar ríkisstjórnar í umhverfis- og lofslagsmálum og nefndi sérstaklega markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, í ávarpi sínu á leiðtogafundi í París í dag. Fundurinn er haldinn í tilefni að því að í dag, 12. desember, eru tvö ár liðin frá samþykkt Parísarsamkomulagsins.

Megintilgangur fundarins, sem haldinn er undir yfirskriftinni „One Planet summit“ er að fagna þeim áfanga sem Parísarsamkomulagið er og vekja athygli á markmiðum þess og átaksverkefnum sem unnið er að undir merkjum þess. Einnig er hvatt til framkvæmdar á ákvæðum samkomulagsins og hertra skuldbindinga auk þess sem fjármögnun loftslagsverkefna er til umræðu á fundinum.

Katrín sagði í ávarpi sínu að Ísland hefði þegar stigið fyrsta skrefið í átt að kolefnishlutleysi með notkun endurnýjanlegrar orku til hitunar og rafmagnsframleiðslu. Næsta skref væri nýting grænnar orku í samgöngum og fiskveiðum. Þar væri stórt verkefni framundan en rafbílar væru að byrja að ryðja sér til rúms, sem vekti bjartsýni. Kolefnishlutleysi næðist ekki á skömmum tíma eingöngu með minnkun losunar; einnig þyrfti að binda kolefni úr andrúmslofti og vernda og endurheimta vistkerfi í því skyni.

Forseti Frakklands bauð til leiðtogafundarins, í samstarfi við framkvæmdastjóra Sameinuðu …
Forseti Frakklands bauð til leiðtogafundarins, í samstarfi við framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og forseta Alþjóðabankans AFP


Í tengslum við leiðtogafundinn tók Ísland undir tvær yfirlýsingar og var tilkynnt um það á fundinum. Annars vegar yfirlýsingu þar sem þátttakendur skuldbinda sig að því að vinna að kolefnishlutleysi (e. Towards Carbon Neutrality) og að gera langtímaáætlun um róttæka minnkun losunar. Hins vegar yfirlýsingu þar sem lýst er stuðningi við vinnu á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnuninnar (e. International  Maritime  Organization, IMO) þar sem unnið er að áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum. Hvort tveggja er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarflokkanna.  

Fyrr í dag sótti forsætisráðherra móttöku og hádegisverð í Elysée höll í boði Emmanuel Macron forseta Frakklands.

Forseti Frakklands bauð til leiðtogafundarins, í samstarfi við framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og forseta Alþjóðabankans og var hann sóttur af yfir 50 þjóðarleiðtogum. Fulltrúar frá um 130 ríkjum sóttu fundinn og skráðir þátttakendur voru um 4000, m.a. fulltrúar ríkisstjórna, sveitarfélaga, félagasamtaka, fyrirtækja, fjármálageirans og vísindasamfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert