Heppinn miðaeigandi fékk 70 milljónir

Vinnigshafinn þurfti að fá að setjast niður til að átta …
Vinnigshafinn þurfti að fá að setjast niður til að átta á fréttunum. mbl.is/Golli

Einn heppinn miðaeigandi hlaut 70 milljónir króna í milljónaveltu Happdrættis Háskóla Íslands en dregið var í kvöld. Um er að ræða hæsta vinning sem greiddur hefur verið út í íslensku happdrætti á þessu ári.

Úlfar Gauti Haraldsson, rekstarstjóri flokkahappdrættis Háskóla Íslands, þurfti að beita öllum sínum sannfæringarkrafti til að fá vinninghafann til að trúa fréttunum þegar hann hringdi í hann.

„Þegar viðkomandi vissi upphæðina þá bað hann mig um að hinkra aðeins því hann vildi setjast niður. Ég þurfti að leggja mig fram um að fá viðkomandi til að trúa þessu. Ég held að ég hafi aldrei þurft að leggja mig jafn mikið fram og þarna,“ sagði Úlfar glaður í bragði í samtali við mbl.is, skömmu eftir spjallið við vinningshafann.

„Þetta er alveg hrikalega skemmtilegt. Þetta er það skemmtilegasta sem maður gerir. Ég orðaði þetta þannig við mitt fólk áðan að við vorum bara að hringja út fullt af jólagjöfum, bara í stærri kantinum.“

Sá sem fékk 70 milljónirnar var nefnilega ekki eini vinningshafi kvöldsins því annar heppinn miðaeigandi 25 milljónir króna í vinning á trompmiða og fjórir fengu 5 milljónir hver.

Alls fengu 3.318 heppnir miðaeigendur vinning í desemberútdrætti Happdrættis Háskóla Íslands og nemur heildarupphæð vinninga um 209 milljónum króna, sem er hæsta upphæð sem greidd hefur verið út í sögu happdrættisins.

Heildarupphæð útgreiddra vinninga á árinu hjá Happdrætti Háskóla Íslands nemur 1.372 milljónum króna sem skiptist á milli 39.260 heppinna miðaeigenda. Megin markmið happdrættisins er efling Háskóla Íslands með byggingu húsnæðis og að útvega góðan tækjakost.  Um einn milljarður króna af tekjum happdrættisins rennur árlega til Háskóla Íslands. Stærstur hluti tekna rennur þó aftur til viðskiptavina happdrættisins í formi vinninga – þar sem vinningshlutfallið er um 70%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert