Hlaut starfsmerki fyrir óeigingjarnt starf

Mynd/UMFÍ

Rán Kristinsdóttir hlaut á héraðsþingi Héraðssambands Snæfells- og Hnappadalssýslu (HSH) í gærkvöldi starfsmerki UMFÍ fyrir mikið og óeigingjarnt starf fyrir íþróttahreyfinguna í Snæfellsbæ. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti Rán starfsmerkið.

Rán hefur verið formaður ungmennafélagsins Víkings, Ólafsvík, síðan árið 2014. Rán hefur lagt mikla vinnu í að gera starf ungmennafélagsins öflugra og betra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá UMFÍ.

Rán hefur einnig staðið fyrir Snæfellsjökulshlaupinu ásamt eiginmanni sínum, Fannari Baldurssyni, en hlaupið var fyrst haldið árið 2010 og hefur það vaxið með hverju árinu. Árið 2017 var metþátttaka í því. Snæfellsjökulshlaupið er um 22 km frá Arnarstapa yfir Jökulháls og til Ólafsvíkur.

Mynd/UMFÍ

„Rán er mikil áhugamanneskja um heilbrigt líferni og hreyfingu. Hún hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum sem tengjast hreyfingu og hefur m.a. átt frumkvæðið að því að stofna skokkhóp fyrir íbúa bæjarins þar sem hún fer með þá að hlaupa/skokka ýmsar vegalengdir um Ólafsvík. Þá hefur hún líka verið með gamlárshlaup á gamlársdag,“ segir í tilkynningunni.

Þing hafði ekki verið haldið í tvö ár

Héraðsþing HSH hafði ekki verið haldið í tvö ár. Á þinginu, sem fór fram í félagsheimilinu Kleif í Ólafsvík mánudagskvöldið 11. desember, var ný stjórn og varastjórn kosin.

Hjörleifur K. Hjörleifsson var kosinn formaður ásamt öðru nýju stjórnarfólki. Ragnhildur Sigurðardóttir, sem sat í starfsstjórn HSH í fyrra var líka kosin í stjórnina ásamt Garðari Svanssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra. Íþróttamaður ársins hjá HSH er Berglind Gunnarsdóttir, leikmaður meistaraflokks kvennaliðs Snæfells í körfuknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert