Leysibendar eru ekki leikföng

Leysibendarnir eru ekki leikföng fyrir börn.
Leysibendarnir eru ekki leikföng fyrir börn. mbl.is/Eggert

Geislavarnir ríkisins árétta að leysibendar eru ekki leikföng og skora á foreldra og aðra aðstandendur að koma í veg fyrir að börn leiki sér með þá. Leysibendar geti valdið alvarlegum augnskaða á örstund sé geislanum beint að auga eins og dæmin sanna.

Þetta kemur fram á vef Geislavarna ríkisins, en þar hafa verið birtar upplýsingar um leysibenda og hættuna sem af þeim getur stafað í kjölfar þess að ungur drengur hlaut alvarlegan augnskaða af völdum leysibendis. 

„Um leysibenda gilda alþjóðlegir staðlar og eru þeir flokkaðir eftir afli geislans sem þeir gefa frá sér. Leysibendar með afl undir 1 mW ( milliWatt ) eru í flokkum 1 og 2 og eiga ekki að geta valdið skaða á auga við eðlilega notkun. Leysibendar með afl meira en 1 mW eru í flokkum 3 og 4 og geta valdið skaða á auga. Þess vegna er notkun þeirra háð leyfi Geislavarna ríkisins. Því aflmeiri sem leysibendirinn er því alvarlegri getur skaðinn orðið. Geislinn frá leysibendi í flokki 4 (afl meira en 500 mW ) er það aflmikill að hann getur valdið íkveikju og endurkast geislans getur valdið augnskaða.

Á leysibendum eiga að vera merkingar sem sýna flokkun þeirra. Því miður eru merkingar stundum rangar og því öruggast að börn leiki sér alls ekki með leysibenda. Varað er við því að slík tæki séu keypt af götusölum erlendis,“ segir á vef Geislavarna ríkisins. 

Um innflutning og notkun leysibenda gildir reglugerð nr. 1339/2015

Nánari upplýsingar um leysibenda og leysa
Eldri fréttir um leysibenda á vef Geislavarna 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert