Meira en mælanlegu hlutirnir

Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Mynd/ Magasínið

Landsvirkjum og TM hafa tekið þátt í Jafnréttisvísinum á vegum Capacent undanfarið ár. Verkefnið er sagt verkfæri fyrir þá sem vilja stuðla að vitundarvakningu og móta skýr markmið í jafnréttismálum innan fyrir fyrirtækja og stofnana. 

„Tímasetningin er eiginlega ótrúleg vegna þess að erum búin að vera að vinna þetta verkefni í tæpt ár,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent, sem ræddi Jafnréttisvísinn í Magasíninu á K100 ásamt Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar. Hörður segist hafa ákveðið fyrir ári að horfast í augu við hægari framgang í jafnréttismálum hjá Landsvirkjun en raun bar vitni. Hann segist fyrst og fremst stoltur af fyrirtækinu og því hversu víðtæk samstaða var að hafa málið á dagskrá. 

Jafnrétti ekki bara jafnlaunavottun

Mikil umræða hefur skapast í þjóðfélaginu undanfarnar vikur um kynferðislega áreitni, misbeitingu valds og orðræðu sem þykir ekki við hæfi. Í kjölfar umræðunnar hafa stjórnendur í atvinnulífinu margir hverjir rýnt í verklag og menningu.  „Við höfum unnið mjög mikið með forstjórum sem við vitum að vilja laga það sem hefur farið úrskeiðis í jafnréttismálum,“ segir Þórey. Hún segir flest íslensk fyrirtæki ekki vel stödd út frá jafnréttissjónarmiðum og einungis 12% kvenna gegna stjórnendastöðu samkvæmt tölum frá Creditinfo. 

„Við höfum verið að þróa þetta með fyrirtækjunum. Þannig að við lögðum upp í ákveðna vegferð og erum núna komin með þetta verkefni sem bjóðum fyrirtækjum að taka þátt í. Og við erum að skoða fleiri þætti en laun.“ Nefnir hún þar sem dæmi menninguna, fyrirmyndirnar, stefnuna, skipulagið og umhverfið. „Við erum með jafnlaunavottun, sem er lögbundin og það er frábært. En á sama tíma er ekki hægt að setja samasemmerki á milli þess að vera með jafnlaunavottun og segja að það sé komið jafnrétti á í fyrirtækinu. Það eru svo margir aðrir þættir sem hafa áhrif á jafnrétti.“

Úttekt á menningu og samskiptum

Hörður segir það lengi hafa verið stefnu og markmið Landsvirkjunar að þar ríki jafnrétti. „En fyrir ári síðan horfðumst við í augu við það að þetta væri ekki að gerast nægjanlega hratt.“ Því hafi verið ákveðið að sækja utanaðkomandi aðstoð og um leið hafi þau séð ákveðin atriði sem samræmdust ekki metnaði þeirra í jafnréttismálum og því hafi verið ákveðið að ráðast í að breyta enn frekar. En hver var sú breyting?

„Í fyrsta lagi að færa okkur aðeins út úr þessum mælanlegu hlutum eins og stjórnendahlutföllum, fjölda sérfræðinga og þess háttar sem er auðvelt að mæla. Við erum búin að vera með jafnlaunaúttekt hjá okkur síðastliðin fimm ár og launin eru algjörlega í samræmi. En það þurfti líka að fara í menninguna og samskiptin og þess háttar.“

Hann segir ýmislegt hafa komið á óvart enda hafi hann talið fyrirtækið standa vel eftir vinnu undanfarinna ár. Ýmislegt leit þó dagsins ljós, ekki endilega stór og alvarlega mál, en mál sem skipta máli og þau hafi ákveðið að taka á. 

Vitundarvakning og víðtæk samstaða 

Menninguna segir Þórey mikilvæga en segir að það megi ekki gleyma mikilvægi fyrirmyndarhlutverka innan fyrirtækjanna. Því hafi skipt máli í allri vinnunni undanfarið ár að Hörður hafi sjálfur ákveðið að leiða verkefnið og sem dæmi hafi hann jafnframt verið formaður jafnréttisnefndarinnar. Hún lýsir því þannig að skilaboðin hafi alltaf verið alveg skýr. Það voru allir að fara saman í þetta og hún segist hafa fundið hvernig allt fyrirtækið var með. 

Og hvernig líður Herði eftir árið og alla vinnuna? „Ég er kannski fyrst og fremst stoltur af því hvernig fyrirtækið tók þessu. Sérstaklega ánægður með það. Því fyrir svona verkfræðikarlakúltúr eins og Landsvirkjun er, þá var mjög sérstakt á starfsdeginum að sjá einmitt alla og hversu víðtæk samstaða var um að þetta mál væri á dagskrá.“  

Hrútslegt eðli rætt á vinnufundi

Í viðtalinu ræða þau vinnudag sem fór fram í tengslum við verkefnið og segir Þórey gagnleg samtöl hafa átt sér stað. Þar hafi líka gefist tækifæri til að lýsa ákveðinni orðræðu á meðal kvenna, svo sem að vera hrútslegur, sem lýsi þá ákveðinni tegund af óheppilegum eða vondum samskiptum. Hún segir einn hafa orðið fyrir ákveðinni vitundarvakningu og sagt: „Ég er að fatta hvað ég er búinn að vera mikill hrútur.“ Hún segir konur þó einnig geta verið hrútslegar og því nái ákveðin samskipti yfir bæði kynin. 

Hörður bætir því við að þetta snúi almennt að kurteisi í samskiptum og að taka tillit til. „Þetta er líka kannski svolítið eldri og yngri. Líkt og hjá okkur þá eru margar ungar konur að koma inn í fyrirtækið og þá fá þær kannski tvöfaldan skammt. Bæði út af því að þær eru konur og þær eru ungar. Þannig að þetta er kannski líka það að við stöldrum við þegar við erum í samskiptum og sýnum hvert öðru virðingu,“ segir Hörður. 

Viðtalið má nálgast í heild í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert