Tekur tíma að prufukeyra ný tæki

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Þegar ný tæki koma hérna inn þarf að fara yfir þau og prufukeyra og það tekur bara sinn tíma,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, í samtali við mbl.is.

Tilefnið er aðsend grein eftir lögblindan mann, Svavar Guðmundsson, í Morgunblaðinu í dag þar sem fram kemur að hann hafi beðið eftir því mánuðum saman að prófa sérstök gleraugu sem gætu hentað augnsjúkdómi hans sem og annarra. Svavar segist í greininni ítrekað hafa reynt að fá að prófa gleraugun en það hafi ekki enn reynst mögulegt.

Frétt mbl.is: Lögblindur en fær ekki ný gleraugu

Svavar segir að honum hafi að lokum verið boðið að prófa gleraugun um miðjan nóvember en ekkert hafi hins vegar orðið af því enn. Svavar rekur samskiptin við stofnunina frá sínum bæjardyrum og gagnrýnir hana harðlega fyrir framgöngu hennar.

Margrét segist ekki geta tjáð sig um einstök mál sem berist inn á borð Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga að öðru leyti en því að umrætt mál sé í eðlilegu ferli innan stofnunarinnar eins og önnur.

Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins, segir aðspurður að mögulegt sé að umrædd gleraugu geti gagnast ákveðnum hópi einstaklinga sem búi við sjónskerðingu við tilteknar athafnir og félagið hafi af þeim ástæðum haft milligöngu um að fá tækið til landsins til þess að hægt væri að leggja mat á gagnsemi þess.

Hingað til lands hafi komið umboðsmaður framleiðandans á Norðurlöndunum og kynnt tækið og skilið sýniseintak eftir sem hafi síðan farið til skoðunar hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga sem sé sá fagaðili sem hafi það verkefni að leggja mat á slík tæki og prófa þau.

Kristinn segir aðspurður að samskipti Blindrafélagsins við stofnunina hafi verið góð í gegnum tíðina. Félagið bindi auðvitað vonir við að umrædd gleraugu geti komið að gagni og málið sem um ræði sé væntanlega í eðlilegum farvegi hjá stofnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert