Varað við mikilli hálku

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Varað er við lúmskri hálku á gangstéttum og í húsagötum í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins. Byrjað er að salta, en fyrst eru teknar allar aðalleiðir, strætóleiðir og tengileiðir, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er krapi bæði á Hellisheiði og í Þrengslum en krapi eða snjóþekja er á köflum á Suðurlandi þótt þar séu víðast aðeins hálkublettir eða jafnvel alveg autt. Þæfingsfærð er á Mosfellsheiði og Kjósarskarði en flughált í sunnanverðum Hvalfirði.

Færð er ekki að fullu könnuð á Vesturlandi né á Vestfjörðum en ljóst er að þar er víðast vetrarfærð og jafnvel talsverð hálka á köflum. Hálka eða hálkublettir eru flestum vegum á Norðurlandi og sums staðar er verið að hreinsa vegi. Það er hált á köflum á Austurlandi og sums staðar éljar. Með ströndinni er hitinn ýmist í kringum núllið eða jafnvel í plús og  krapi á vegum suður í Öræfi en flughált á köflum þar fyrir vestan.

„Nú ganga skil frá lægð á Grænlandssundi yfir landið með suðaustanátt og rigningu eða slyddu og heldur hlýrra lofti en hefur legið yfir landinu undanfarna daga. Suðvestantil er stytt upp í bili, en við taka skúrir eða él þegar líður á morguninn. Annars staðar verður úrkoma af og til í dag, ýmist rigning, slydda eða snjókoma. Þó loftið sé nokkuð hlýrra en undanfarna daga er það þó skammgóður vermir því í kvöld og nótt snýst aftur í fremur kalda norðanátt með snjókomu eða éljum á norðanverðu landinu og frosti um mest allt land. 
Spár gera ráð fyrir norðanátt og svölu veðri næstu daga, en á laugardag og sunnudag er útlit fyrir lægðargang með hvassviðri á köflum og talsverðri úrkomu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustan og síðar austan 10-18 m/s og allvíða rigning eða slydda á láglendi en snjókoma til fjalla. Úrkomulítið norðaustantil fram eftir degi. Snýst smám saman í sunnan og suðvestan 8-13 m/s með skúrum eða éljum suðvestantil. Gengur í austan og norðaustan 8-15 m/s með éljum á norðan og austanverðu landinu í kvöld og nótt, en heldur hægari og léttir til sunnan jökla á morgun. Hiti um og yfir frostmarki en vægt frost NA-lands fram eftir degi. Kólnar aftur í nótt og á morgun.

Á miðvikudag:

Snýst í norðaustan 8-13 m/s. Slydda suðaustan og austanlands en snjókoma til fjalla. Léttir smám saman til á Suður og -Vesturlandi. Hiti um og yfir frostmarki við ströndina en vægt frost inn til landsins. 

Á fimmtudag:
Norðan 5-13 og dálítil él með norður og austurströndinni en léttskýjað sunnan heiða. Kólnar í veðri og frost víða 1 til 7 stig. 

Á föstudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og bjartviðri, en él við norðurströndina. Harðnandi frost, allt að 15 stig inn til landsins um kvöldið. 

Á laugardag:
Suðaustanátt með heldur hlýnandi veðri og rigningu eða slyddu við suðvesturströndina en snjókomu til fjalla. Bjartviðri víðast hvar norðan og austantil og áfram frost. Snýst í suðvestlæga átt með éljum SV-til um kvöldið og þykknar upp með slyddu eða snjókomu austantil. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag:
Líkur á suðvestanátt með éljum um landið vestanvert, en léttir til austanlands. Vaxandi suðaustanátt, þykknar upp og hlýnar SV-til um kvöldið. 

Á mánudag:
Útlit fyrir hvassa og hlýja suðaustanátt með rigningu víða um land en suðvestan hvassviðri með skúrum vestantil síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert