Andlát: Þröstur Sigtryggsson skipherra

Þröstur Sigtryggsson.
Þröstur Sigtryggsson.

Þröstur Sigtryggsson skipherra lést síðastliðinn laugardag, 9. desember. Hann var fæddur 7. júlí 1929, sonur hjónanna Hjaltlínu Margrétar Guðjónsdóttur, kennara og húsfreyju frá Brekku á Ingjaldssandi, og séra Sigtryggs Guðlaugssonar, prests og skólastjóra á Núpi í Dýrafirði. Bróðir Þrastar var Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri.

Þröstur ákvað snemma að gera sjómennsku að ævistarfi. Hann tók inntökupróf í 2. bekk farmanna í Stýrimannaskólanum haustið 1952 og útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum 1954 og lauk prófi í varðskipadeild í sama skóla 1954. Hann réðst þá sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni og varð skipherra 1960 og starfaði þar uns hann lét af störfum árið 1990, og hafði þá tekið þátt í þremur þorskastríðum.

Þröstur kenndi veturna 1990-1992 við grunnskólann á Þingeyri og stundaði sjósókn þaðan. Þá var hann skólastjóri barnaskólans á Núpi 1981 til 1983 og kenndi einnig við héraðsskólann þar.

Þröstur var mikill áhugamaður um golf á þessum árum og stofnaði golffélagið Glámu á Þingeyri og stóð að og hannaði 9 holu golfvöll þar vestra. Æskuslóðirnar voru honum hugleiknar og gerði hann æskuheimili sitt, Hlíð í Dýrafirði, að menningarminjasafni. Átti hann hugmynd að ritun sögu Núpsskóla. Sú hugmynd varð að veruleika og kom bókin sem Aðalsteinn Eiríksson ritaði út í sumar þegar 110 ár voru frá stofnun skólans. Minningabók Þrastar, Spaugsami spörfuglinn, kom út 1987. Þröstur var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 17. júní 1976.

Vorið 1954 kvæntist Þröstur Guðrúnu Pálsdóttur sjúkraliða (f. 1933, d. 2013. Börn þeirra eru Margrét Hrönn, Bjarnheiður Dröfn og Sigtryggur Hjalti. Fyrir átti Þröstur dótturina Kolbrúnu Sigríði. – Eftir lát eiginkonu sinnar eignaðist Þröstur góðan félaga og vin, Hallfríði Skúladóttur.

Útför Þrastar verður gerð frá Grafarvogskirkju næstkomandi þriðjudag, 19. desember, kl. 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert