Fleiri akreinar og akrein fyrir strætó í Garðabæ

Kort sem sýnir helstu breytingar við breikkunina á Hafnarfjarðarvegi og …
Kort sem sýnir helstu breytingar við breikkunina á Hafnarfjarðarvegi og Vífilsstaðavegi. Kort/Garðabær, Verkís, Vegagerðin

Til stendur að gera endurbætur á Hafnarfjarðarvegi þar sem hann liggur fram hjá Garðabæ frá Vífilsstaðavegi (fyrir neðan Hagkaup) að Lyngási (þar sem Héðinn var áður til húsa). Skipulagsnefnd bæjarins hefur samþykkt tillögur að breyttu deiliskipulagi til forkynningar og verða þær kynntar á íbúafundi á morgun í Flataskóla.

Meðal þess sem lagt er upp með í tillögunum er að breikka gatnamótin þannig að tvær beygjuakreinar verði fyrir umferð sem kemur Hafnarfjarðarveginn og ætlar að beygja á Vífilsstaðaveg. Þá verður akreinum fjölgað fyrir umferð bæði í norður- og suðurátt og sérstakri strætisvagnaakrein bætt við í norðurátt (frá Hafnarfirði í áttina að Kópavogi).

Þrjár akreinar og þrjár beygjuakreinar til suðurs

Verður Hafnarfjarðarvegurinn með þessum breytingum þrjár akreinar í suðurátt auk þess sem beygjuakreinar bætast við áður en beygt er á Vífilsstaðaveg, þar sem í heild þrjár beygjuakreinar bætast við. Eftir að komið er fram hjá Vífilsstaðaveginum verða akreinarnar áfram þrjár, en kvíslast svo í tvær beygjuakreinar við Lyngás og tvær akreinar halda áfram út í Hafnarfjörð.

Í norðurátt verða almennar akreinar þrjár eftir Lyngás auk nýrrar strætisvagnaakreinar fram að aðreininni að Hagkaup og Túnahverfi.

Ný undirgöng undir Hafnarfjarðarveg

Fyrirhugað er að breyta núverandi undirgöngum undir Hafnarfjarðarveginn við söluturn Aktu taktu og gera ný undirgöng beint niður frá Stjörnuheimilinu, meðfram Hagakotslæknum.

Með þessum breytingum á göngustígakerfinu mun bílastæðum við íþróttamiðstöðina fækka um 46, en um er að ræða stæðin sem eru fjærst bæði íþróttaheimilinu og Stjörnuheimilinu.

Hringtorg við Flataskóla

Tillögurnar ná einnig til þess að breikka hluta Vífilsstaðavegarins og koma fyrir hringtorgi á gatnamótum Litlatúns og Vífilsstaðavegar, mitt á milli Flataskóla og Hagkaups. Verður hringtorgið tveggja akreina.

Þá er ætlunin að endurnýja eða leggja nýja göngustíga bæði við Vífilsstaðaveginn og Hafnarfjarðarveginn til að tengja hverfi bæjarins hvort sínu megin við Hafnarfjarðarveginn betur saman, meðal annars með fyrrnefndum tvennum undirgöngum. Við Lyngás eru einnig fyrirhugaðar nokkrar breytingar, meðal annars á aðreinum og fráreinum.

Skoða má tillögurnar nánar á vef Garðabæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert