Formaður VR hvetur til mótmæla

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Ljósmynd/Aðsend/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur hvatt til þess að mótmæli fari fram á föstudaginn 15. desember fyrir utan húsnæði eignarhaldsfélagsins Klakka vegna fregna um bónusgreiðslur níu starfsmanna og stjórnarmanna í félaginu.

Í grein Fréttablaðsins í morgun kemur fram að stjórnendur og stjórnarmenn Klakka geti fengið samanlagt um 550 milljónir í bónus í tengslum við væntanlega sölu á eignaleigufyrirtækinu Lykli og vegna annarra eigna félagsins sem hafa verið seldar á síðustu árum.

„Ég átti erfitt með að hemja tilfinningar mínar þegar ég las þessa frétt. Mér er svo gjörsamlega misboðið að ég á varla til eitt einasta aukatekið orð. Er einhver stemning fyrir því að boða til mótmæla fyrir utan Klakka, Ármúla 1 kl. 13 næstkomandi föstudag og þeyta úr bílflautum fyrir utan í mótmælaskyni? Fólk gæti keyrt fram hjá þegar það á lausan tíma um hádegisbil eða þess vegna allan,“ skrifar Ragnar Þór á Facebook-síðu sína.

„Að stjórnendur skuli voga sér að þiggja slíka bónusa er ekki bara grátlegt heldur algjörlega siðlaust. Þeim væri nær að skila þessum peningum til þeirra sem enn eiga um sárt að binda vegna þess skaða sem fyrirtækin ollu íslensku samfélagi,“ skrifar Ragnar Þór og talar um að saga Existu, nú Klakka, og Lykils, áður Lýsingar, og félaganna sem voru þar undir vera líklega sorglegustu sögu hrunsins og eftirmála þess.

„Að ofurlaunaðir stjórnendur skuli hugsanlega taka til sín allt að 60 milljónir hver í bónusgreiðslur er ekkert annað en viðbjóðslegt.“

Ragnar Þór gagnrýnir einnig að íslenskir lífeyrissjóðir skuli tengjast þessum fyrirtækjum og hrunmálum.

„Ég kalla eftir viðbrögðum lífeyrissjóða, almennings og stjórnvalda. Við getum ekki látið þetta viðgangast mikið lengur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert