Situr grátandi í flóttamannabúðum í Þýskalandi

Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim …
Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim voru send til Þýskalands í síðasta mánuði. Þau dvelja nú í flóttamannabúðum í Þýskalandi. mbl.is/Árni Sæberg

Hjón­in Nasr Mohammed Rahim og Sobo Answ­ar Has­an  og 18 mánaða sonur þeirra Leo, sem voru flutt á brott af Íslandi í lok síðasta mánaða dvelja nú í flóttamannabúðum í Þýskalandi þar sem að  fjölskyldunni er ekki frjálst að fara eða koma nema með leyfi yfirvalda, þar sem enga síma má hafa og enga nettengingu er að finna.

Sema Erla Serder fjallar um afdrif fjölskyldunnar í færslu á Facebook síðu sinni. Fjöl­skyld­unni hafði verið synjað um hæli á Íslandi og þar áður í Þýslandi og Sobo, sem er ólétt, lá inni á spít­ala um vegna verkja og blæðinga áður en þau voru flutt úr landi.

„Þetta litla, saklausa, fallega barn, sem ekki hefur unnið sér neitt til saka, nema kannski að hafa fæðst á flótta, situr nú grátandi í hálfgerðum fangabúðum í Þýskalandi, ásamt óléttri og veikri móður sinni og föður sínum,“ segir Sema Erla í færslu sinni.

Fjölskyldan velti því nú stöðugt fyrir sér hvenær þau verði send frá Þýskalandi á heimaslóðir sínar þar sem ekkert bíði þeirra nema enn meiri hörmungar. Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með ír­akst rík­is­fang og Sobo með ír­anskt. Leo er hins­veg­ar fædd­ur á flótta og því rík­is­fangs­laus.

Yfirvöldum hafi ítrekað verið bent á að fjölskyldunni hafi verið neitað um vernd í Þýskalandi og hvött til þess að ganga úr skugga um að fjölskyldan yrði send frá Þýskalandi og á svæði þar sem þau eru í hættu, líkt og yfirvöld séu skuldbundin til að gera, þá hafi allar slíkar ábendingar verið hundsaðar.

„Kæru stjórnvöld,“ segir Sema Erla í færslu sinni. „Það er ekkert annað í stöðunni en að hætta strax að sýna svona hrikalega grimmd í garð fólks, það er ekkert annað í stöðunni en að hætta að koma fram við fólk á flótta á svona ómannúðlegan og hrikalegan hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert