Ísland valið fegursti tökustaðurinn

Einar Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, tók við verðlaununum á Indlandi.
Einar Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, tók við verðlaununum á Indlandi. Ljósmynd/Aðsend

Ísland var valið fegursti tökustaðurinn á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni International Film Business Awards í byrjun desember. Einar Tómasson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, tók við verðlaununum, en hann leiðir verkefnið Film in Iceland sem kynnir Ísland sem tökustað erlendis. Verðlaunaafhendingin fór fram í tengslum við Indywood Film Carnival sem er ein stærsta sölu- og kynningarhátíð kvikmyndageirans og haldin er á Indlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Á undanförnum árum hafa sex kvikmyndir frá Indlandi verið teknar upp hér á landi. Sú stærsta þeirra er kvikmyndin Dilwale, með Shah Rukh Khan sem er stundum nefndur konungur Bollywood. Myndin var tekin upp hér árið 2015 . Þess má geta að myndband við lagið Gerua úr kvikmyndinni var tekið upp hér á landi og nam framleiðslukostnaður þess um einni milljón dollara. Lagið náði umtalsverðum vinsældum og hafa um 200 milljónir horft á það á Youtube. 

„Ég held að fólk geri sér kannski ekki grein fyrir því hvað kvikmyndaiðnaðurinn í Indlandi er stór. Þar eru árlega gerðar meira en 1.500 kvikmyndir og seldir fleiri miðar en nokkurs staðar í heiminum.“ Þetta er haft eftir Einari Tómassyni, verkefnastjóra Film in Iceland hjá Íslandsstofu, í tilkynningu. Hann segir jafnframt að áhugi á Íslandi sem tökustað hafi vaxið á Indlandi.   

Íslandsstofa hefur staðið fyrir kynningu á Íslandi sem tökustað undanfarin ár í samstarfi við sendiráð Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert