Óhugnanleg árás í Garðabæ óupplýst

Útsýni yfir Garðabæ.
Útsýni yfir Garðabæ. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ráðist var að 10 ára stúlku sem var á gangi í Garðabæ síðdegis á mánudag. Stúlkan náði að sleppa en talið er að gerandinn sé piltur á aldrinum 17-19 ára. Lögregla rannsakar málið.

Móðir stúlkunnar greinir frá atvikinu í Facebook-hópi íbúa í Garðabæ. Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði, staðfestir að atvikið hafi komið á borð lögreglu; mál þar sem maður greip í stúlku og greip fyrir munn hennar og reyndi að draga hana afsíðis.

Móðir stúlkunnar lýsir því þannig að þrjár stúlkur hafi verið á gangi þegar þær urðu varar við unglingspilt sem hafði horft á þær og veitt þeim eftirför. „Skyndilega greip hann í dóttur mína og tók hana hálstaki um leið og hann tók um munn hennar og dró hana með sér í burtu,“ skrifaði móðirin.

Hinar stúlkurnar hlupu heim eftir hjálp. Önnur þeirra sneri fljótt til baka en árásarmaðurinn sleppti stúlkunni þegar hann sá vinkonu hennar koma hlaupandi að honum. „Þær sáu því miður ekki framan í hann því hann var með hettu sem huldi að mestu andlit hans,“ skrifaði móðirin.

Sævar segir að lögreglan viti ekki hver árásarmaðurinn er. „Það voru engar vísbendingar um hver þetta gæti verið þegar málið var afgreitt á vettvangi,“ segir Sævar sem bætir við að atvikið hafi verið býsna ruddalegt en sem betur fer hafi stúlkan náð að losna.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert