Orðið „dómsmorð“ eigi sér langa hefð

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson.

 „Samræmist það málvenju að nota orðið dómsmorð þegar mengað hugarástand dómara leiðir til sakfellingar.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð sem lögð var fyrir í meiðyrðamáli Benedikts Bogasonar hæstaréttarlögmanns á hendur Jóni Steinari Gunnlaugssyni, í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Þar er rakin löng hefð fyrir notkun orðsins dómsmorð í fræðilegri og almennri umfjöllun á Íslandi. Það hafi meðal annars komið fyrir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, Hafskipssmálinu og í tengslum við hrunmálin.

„Hingað til hafa slík ummæli ekki verið túlkuð þannig að verið sé að saka einstaka dómara um refsiverða háttsemi, eins og miðað er við í stefnu,“ segir einnig í greinargerðinni. Ummælunum hafi verið beint að Hæstarétti sem stofnun, en ekki Benedikt sem persónu. Beri því að sýkna Jón Steinar vegna sóknaraðildarskorts Benedikts í málinu.

Í bók sinni, Með lognið í fangið, sakar Jón Steinar Hæstarétt um að hafa framið dómsmorð þegar Baldur Guðlaugsson var sakfelldur fyrir innherjasvik. Benedikt Bogason, einn fjögurra dómara sem kváðu upp dóminn, telur að Jón Steinar sé með þessari hugtakanotkun að saka hann um refsiverða háttsemi og höfðaði hann því meiðyrðamál á hendur honum. Málið er nú rekið fyrir dómstólum og lagði Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Steinars, fram greinargerð í málinu í dag. Greinargerðin er ítarleg í yfir 70 liðum, en þar meðal annars fjallað um hefð fyrir notkun orðsins dómsmorð.

Er notkun orðsins rakin allt aftur til ársins 1681 þar sem það kom fram í skýrslum Árna Magnússonar og Páls Vídalíns til ríkisstjórnarinnar í Kaupmannahöfn um íslenskt réttarfar, þar sem fjallað var um mál Ara Pálssonar, sem sakfelldur var fyrir að hafa fariði óleyfilega með fjölkynngi. Þar kom fram að allur málatilbúnaður hefði verið meingallaður og því væri um dómsmorð að ræða.

 Í greinargerðinni segir að þekktasta notkunin á hugtakinu í umræðunni um dómsmál sé þó sjálfsagt í tengslum við meðferð lögreglu, ákæruvalds og dómstóla í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þar hefði þáverandi forsætisráðherra lýst þeirri skoðun sinni að framin hefðu verið „ekki eitt dómsmorð heldur mörg.“

 Annað þekkt dæmi sé í tengslum við Hafskipsmálið þar sem einn sakborninga lét hafa þessi orð eftir sér fyrir uppkvaðningu dóms: „Ég kom ekki til að hlusta á dómsmorð.“ Bent er á að orðnotkunin hafi orðið tilefni gagntjáningar, en ekki málsóknar.

Þá hafi Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings sagt að „dómsmorð hafi verið framið í Hæstarétti“ í hinu svokallaða Al Thani máli. Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hafi einnig lýst þeirri skoðun sinni að dómsmorð hefði verið framið þegar hann var sakfelldur í Hæstarétti í Ímon-málinu svokallaða.

„Af framangreindu er ljóst að ummæli stefnda um „dómsmorð“ eru í samræmi við almenna lögfræðilega orðnotkun. Þá er orðnotkunin í samræmi við almenna málvenju. Ef dómur í máli þessu félli stefnanda í vil, hefði það ófyrirséðar afleiðingar fyrir tjáningarfrelsi lögfræðinga, fræðimanna, fjölmiðlamanna, sakborninga, aðstandendur þeirra og allan almenning,“ segir í greinargerðinni.

Þar er einnig bent á að „hvassyrði, stóryrði, ögrun og ýkjur,“ njóti sérstakrar tjáningarfrelsisverndar þegar um sé að ræða málefni sem hafi þjóðfélagslega þýðingu, samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Frelsi til að tjá sig með slíkum hætti sé oft nauðsynlegur þáttur í því að vekja athygli almennings á þjóðfélagslega mikilvægum málefnum.

„Samkvæmt framansögðu er ljóst að jafnvel þótt það teldist ofmælt að nota orðið „dómsmorð“ um mál Baldurs Guðlaugssonar eða að dómarar „hljóti að vita“ að sakfellingardómurinn hafi verið rangur, að ummæli stefnda njóta tjáningarfrelsisverndar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert