Veginum sennilega sjaldan eins vel sinnt

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það kemur ekki á óvart að þarna skuli verða slys þar sem lega og lögun vegarins er víða stórhættuleg. Það er guðsmildi að ungmennin hafi ekki slasast við þennan útafakstur. Það væri langsótt að ætla að rekja orsök slyssins til vetrarþjónustunnar því sennilega hefur henni sjaldan verið eins vel sinnt og verið hefur það sem af er vetri, þó alltaf megi gera betur.“

Frétt mbl.is: „Hverju er verið að bíða eftir?“

Þetta segir Bjarni D. Daníelsson, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar, í samtali við mbl.is spurður um þjónustu á Reykjavegi yfir Torfastaðaheiði. Fimm ungmenn voru hætt komin þegar bifreið þeirra fór út af veginum um síðustu helgi og sagði faðir eins þeirra að ástæðuna væri að hans mati að rekja til þess að vegurinn væri ekki nógu vel þjónustaður. Bjarni efast ekki um hans upplifun en reyndin sé önnur.

Þannig hafi Reykjavegur verið sandaður kvöldið áður en slysið átti sér stað. Vegna hálku hafi verið lögð rík áhersla á að sanda veginn sem og að skafa hann þegar þess hafi þurft. Þar sem slysið hafi orðið hafi vegurinn verið mjög vel sandaður.

Slysið ekki að rekja til skorts á þjónustu

„Við sendum þjónustuaðilann okkar til að fara yfir söndunina í kjölfarið af þessu slysi,“ segir Bjarni aðspurður. Gott samstarf sé á milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar þegar kemur að vetrarþjónustu við veginn.

„Það er okkur keppikefli að veita íbúum eins góða þjónustu og mögulegt er þegar kemur að mokstri og söndun,“ segir hann. Hins vegar sé hægt að taka undir það að lengi hafi staðið til að byggja veginn upp og gera þetta meira að heilsársvegi.

Þannig sé mikil umferð um veginn og tímabært að gera endurbætur á honum. Það hafi ítrekað verið á vegaáætlun en síðan farið út aftur. Sveitarfélagið hafi lagt áherslu á að farið yrði í þá vinnu. Málið væri orðið hvimleitt fyrir íbúana.

Tekur undir áhyggjur af aukinni umferð

Vegagerðin tekur undir það að samstarf Bláskógabyggðar og Vegagerðarinnar sé gott varðandi þjónustu við Reykjaveg. Vegurinn sé mokaður þegar þess þurfi og hálkuvarinn í flughálku. Vettvangur slyssins hafi verið vel sandaður.

Vegurinn sé þjónustaður að vetri til samkvæmt svokallaðri helmingamokstursreglu. Vegurinn er þá mokaður þegar sveitarfélagið óski eftir því og kostnaðinum sem fellur til vegna þess skipt til helminga á milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar. 

Vegagerðin tekur undir áhyggjur af aukinni umferð um svæðið og þá ekki síst erlendra ferðamanna að vetri til. Víða sé hins vegar kallað eftir aukinni þjónustu og ljóst að koma þurfi til auknar fjárveitingar til þess að hægt verði að veita hana.

Ljósmynd/Karl Jóhann Bridde
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert