Versnandi veður í kortunum

Nú snýst aftur í norðlægar áttir með éljum og kólnandi veðri. Bæði getur fryst á blautum vegum víða um land og einnig má búast við skafrenningi, einkum norðan- og austanlands. Síðdegis og í kvöld hvessir einnig talsvert í Öræfum ásamt því að þar geta stungið sér niður él og takmarkað þannig skyggni. Ferðalöngum er bent á að gæta fyllstu varúðar, segir í athugasemd á vef Veðurstofu Íslands.

„Vindur snýst nú smám saman til norðurs og hlýja loftið hverfur suður af landinu. Í dag má búast við kólnandi veðri, slydduéljum og éljum með norðaustan strekkingi víða á landinu, en suðvestantil verður bjartviðri eins og svo oft í norðaustanátt.

Í kvöld og nótt hvessir nokkuð skarpt í Öræfum og verður byljótt við fjöll, á sama tíma gætu él stungið sér niður og takmarkað skyggni nokkuð, eins er viðbúið að um leið og frystir norðan- og austanlands nái skafrenningur sér aftur á strik með tilheyrandi vetraraðstæðum til ferðalaga. 

Útlit er fyrir svipað veður með frosti og norðlægum áttum fram á laugardag en þá bíða tvær lægðir í röð, sú fyrri á laugardag en sú seinni á mánudag og er hún hlýrri og meiri um sig en sú fyrri og því vissara að fylgjast með þróun veðurspáa næstu daga,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næstu daga

Norðaustan 8-15 m/s og él eða snjókoma með köflum en hægari og bjartviðri sunnan og suðvestanlands. Hvessir og þykknar upp með éljum SA-lands síðdegis. Norðaustan 10-18 í nótt og á morgun, hvassast suðaustanlands en vestlægari seint annað kvöld. Áframhaldandi éljagangur með norðurströndinni og austanlands en yfirleitt bjartviðri sunnan- og vestantil. Hiti um og undir frostmarki.

Á fimmtudag:

Norðan 5-13 og dálítil él með norður- og austurströndinni en léttskýjað sunnan heiða. Frost víða 1 til 7 stig. 

Á föstudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og bjartviðri, en skýjað með köflum og él við norður- og austurströndina. Harðnandi frost, allt að 15 stig inn til landsins um kvöldið. 

Á laugardag:
Suðaustanátt með hlýnandi veðri og rigningu eða slyddu við suðvesturströndina en snjókomu til fjalla. Bjartviðri víðast hvar norðan- og austantil og áfram frost. Snýst í suðvestlæga átt með snjókomu og síðar éljum S- og V-til um kvöldið og þykknar upp austantil. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag:
Suðvestanátt með éljum um landið vestanvert, en léttir til austanlands. Vaxandi suðaustanátt, þykknar upp og hlýnar seint SV-til um kvöldið. 

Á mánudag:
Útlit fyrir hvassa og hlýja sunnanátt með talsverðri rigningu víða um land en suðvestan hvassviðri með skúrum vestantil síðdegis. Hiti 2 til 8 stig síðdegis. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir suðvestlæga átt með skúrum og síðar éljum á vestanverðu landinu en léttir til eystra. Kólnar í veðri og frystir inn til landsins um kvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert